Fundargerð 13. ágúst 2004

49. / 18. fundar Heilbrigðisnefndar Austurlands
Fundurinn haldinn símleiðis
föstudaginn 13. ágúst 2004, kl. 12:45.
  1. Málefni einstakra fyrirtækja
  2. Umsókn um yfirtöku / framsal eftirlits frá Umhverfisstofnun til HAUST.
  3. Vatnsverndarsvæði í Bjólfinum við Stafdalsá

Mætt:
Nefndarmenn: Ólafur Sigurðsson, Egill Jónasson, Sigurður Ragnarsson, Þorsteinn Steinsson, Benedikt Jóhannsson og Árni Ragnarsson. Björn Hafþór tilkynnti forföll.
Starfsmenn: Helga Hreinsdóttir, Árni J. Óðinsson


1. Málefni einstakra fyrirtækja
a) Impregilo.
i) Ræstiaðstaða í svefnskálum. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og veitta fresti eru enn ekki ræstilaugar í ræstigeymslum í svefnskálum í aðalbúðum Impregilo á Laugarási við Kárahnjúka, né heldur í svefnskálum fyrirtækisins í aðkomu 3 í Tungu. Þetta hefur verið staðfest í eftirlitsferðum í viðkomandi svefnskála 5.8.2004 og 10.8.2004

Í hollustuháttareglugerð nr. 941/2002 segir: “Sérstakt loftræst rými skal vera fyrir ræstiáhöld og ræstilaug, þar sem það á við”. Og í samræmdum starfsleyfisskilyrðum Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits fyrir starfsmannabúðir segir “Aðgangur skal vera að sérstakri loftræstri ræstiaðstöðu og skolvaski. Þar skal vera nægilegt geymslurými fyrir ræstiáhöld og efnavöru.”

Þann 5.8. sl. var fyrirtækinu sent bréf og tilkynnt að HAUST íhugaði að áminna fyrirtækið og leggja á dagsektir og andmælaréttur veittur til 12.8.2004. Engin bréf eða tölvupóstur hefur borist frá fyrirtækinu vegna þessa máls.

Heilbrigðisnefnd veitir hér með fyrirtækinu Impregilo S.p.A. skriflega áminningu og einnar viku frest til að uppfylla ofangreind ákvæði hollustuháttareglugerðar og starfsleyfisskilyrða. Þetta er gert í samræmi við ákvæði 26. gr. hollustuháttalaga nr. 7/1998 m.s.br. og í samræmi við grein 70 í hollustuháttareglugerð nr. 941/2002.

Verði úrbótum ekki lokið fyrir 20.8.2004 mun heilbrigðisnefnd leggja á dagsektir sem nemur 1000 kr/dag per svefnskála þar til allir svefnskálar verða komir með ræstiaðstöðu, annars vegar í starfsmannabúðunum á Laugarási og hins vegar í Tungu. Dagsektir telji frá og með 21.8. og verði innheimtar á fimm daga fresti, fyrst 26.8., síðan 31.8. o.s.frv. þar til tilkynning hefur borist um að í öllum svefnskálum sé búið að innrétta viðunandi loftræst rými með ræstilaug og rými fyrir ræstiáhöld og efnavöru. Intrum Justitia verði falið að innheimta dagsektirnar jafnóðum. Ákvörðun þessi um dagsektir er í samræmi við ákvæði 27. gr. hollustuháttalaga nr. 7/1998 m.s.br. og í samræmi við grein 72 í hollustuháttareglugerð nr. 941/2002.

Til skýringar: Á Laugarási eru 32 svefnskálar og í Tungu eru 6 svefnskálar. Þannig yrði send rukkun þann 26.8. fyrir Laugarás að upphæð (5 dagar * 32 skálar * 1000 kr/skála ) kr. 160.000 og fyrir Tungu (5 dagar * 6 skálar * 1000kr/skálar) kr. 30.000.

ii) Rými í svefnskálum. HAUST hefur með skoðun staðfest að í svefnskálum Impregilo nr. D20 og D28 á Laugarási gista fleiri en einn starfsmaður í herbergjum sem ekki eru 8 m_ að gólfleti. Hér er um að ræða brot á ákvæðum hollustuháttareglugerðar nr. 941/2004 þar sem segir: “Gólfflötur skal vera minnst 4 m_ á hvern íbúa í svefnrými.”

Þann 14.2.2004 svaraði HAUST beiðni um heimild til að tvímenna í herbergi á eftirfarandi máta: “Séu herbergi a.m.k. 8 m2 að stærð og rými fyrir tvö rúm sem eru 2m x 80cm að stærð í herberginu, salerni sem og sturtur í hverjum svefnskála séu ekki færri en eitt fyrir hverja 10 íbúa hefur HAUST ekki athugasemdir við ofangreindar áætlanir út frá hollustuháttareglugerð”. Skýrt er því að HAUST hefur ekki veitt heimildir eða undanþágur frá ofangreindu ákvæði reglugerðarinnar. Tvísetning í herbergi sem ekki ná 8 m_ gólffleti eru skýrt brot á reglugerð og starfsleyfi.

Fyrirtækinu hefur verið sent bréf dags. 12.8. vegna málsins og því gefinn tveggja vikna frestur til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar sem og 10 daga frestur til andmæla skv. stjórnsýslulögum.

Berist ekki tilkynning um breytt ástand eða gild andmæli er frkvstj. falið að veita fyrirtækinu skriflega áminningu og einnar viku frest til að uppfylla ofangreint ákvæði hollustuháttareglugerðar. Þetta er ákveðið í samræmi við ákvæði 26. gr. hollustuháttalaga nr. 7/1998 m.s.br. og í samræmi við grein 70 í hollustuháttareglugerð nr. 941/2002.

Verði úrbótum ekki lokið fyrir 2.9.2004 mun Heilbrigðisnefnd leggja á dagsektir sem nema 34.000 kr/dag per svefnskála þar sem krafa um 4 m2 per starfsmann í gistirými er ekki uppfyllt. Dagsektir telji frá og með 3.9. og verði innheimtar á fimm daga fresti, fyrst 8.9. þar til tilkynning hefur borist um að í allir starfsmenn hafi að lágmarki 4m2 gólfrými í svefnaðstöðu. Intrum Justitia verði falið að innheimta dagsektirnar jafnóðum. Ákvörðun þessi um dagsektir er í samræmi við ákvæði 27. gr. hollustuháttalaga nr. 7/1998 m.s.br. og í samræmi við grein 72 í hollustuháttareglugerð nr. 941/2002
.

Til skýringar: Í svefnskálum eru 17 herbergi. Ef tveir eru í hverju herbergi eru samtals 34 í skála. 1000 kr per mann gefur 34 þús. kr per skála.

iii) Fráveitur frá gangnamunnum innihalda mikið af setefnum og einnig allmikið af olíu. Af hálfu Impregilo hefur verið lögð fram tímasett áætlun um að nota slöngur og púða sem soga í sig olíuefni og einnig felliefni til að hreinsa svifefni úr fráveituvatni frá göngum í aðkomu 3 í Tungu. Þann 1.9.2004 eru áætlað að bæði kerfin verði komin í notkun.

Heilbrigðisnefnd gerir kröfu um að fyrirtækið beiti samskonar hreinsiaðferðum við fráveitu frá gangnamunnum þar sem viðtakar eru tærar bergvatnsár eða yfirborð lands, en þar sem öflugar jökulár eru viðtakar er krafa um að olía verði hreinsuð, en ekki um að svifefni verði felld út. Krafa þessi byggir m.a. á gr. 5 í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp:
5.3 Nefndin getur krafist þess að aðilar í atvinnurekstri sem valdið getur mengun í fráveitu komi fyrir viðunandi hreinsibúnaði á eigið fráveituvatn. Þetta getur átt við almenningsskólpveitur en þó einkum fráveituvatn sem er mengað af olíu eða eiturefnum eða mjög próteinríkt eða fituríkt fráveituvatn frá verksmiðjum eða hvers konar öðrum atvinnurekstri.
5.4 Óheimilt er að láta hvers kyns olíur, bensín, lífræn leysiefni eða önnur mengandi efni í fráveitur íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Með slíkan úrgang fer samkvæmt reglugerð um spilliefni.

Ennfremur má benda á eftirfarandi í sömu reglugerð, þar sem krafa er fyrir viðtaka sem ekki njóta sérstakrar verndar, en yfirborð lands og tærar ár eiga að njóta verndar umfram það.

Fylgiskjal 1.
Gæðamarkmið og umhverfismarkmið fyrir hámarksmengun.
A. Við útrásir þar sem fráveituvatn er leitt í viðtaka sem ekki njóta sérstakrar verndar má
hvergi vera:
– Set eða útfellingar.
– Þekjur af rotverum (bakteríur og sveppir).
– Olía eða froða.
– Sorp eða aðrir aðskotahlutir.
– Efni sem veldur óþægilegri lykt, lit eða gruggi.

 

2. Umsókn um yfirtöku / framsal eftirlits frá Umhverfisstofnun til HAUST.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur endurtekið óskað eftir viðræðum við Umhverfisstofnun vegna framsals eftirlits með fyrirtækjaflokkum sem Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi og hefur eftirlit með á Austurlandi.

Með bréfi HAUST sem sent var Umhverfisstofnun þann 6.5.2004 var farið fram á eftirfarandi:

Hér með er formlega óskað eftir að Umhverfisstofnun geri samning við Heilbrigðiseftirlit Austurlands um að HAUST fari f.h. Umhverfisstofnunar með eftirlit með allri starfsemi sem stofnunin vinnur starfsleyfi fyrir og/eða hefur eftirlit með og staðsett er á Austurlandi. Þetta á m.a. við starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali 1 og I. viðauka í reglugerð um mengunarvarnaeftirlit nr. 78/1999 og starfsemi skv. 8. kafla reglugerðar nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.

Ennfremur óskar Heilbrigðiseftirlit Austurlands eftir því að Umhverfisstofnun feli HAUST meðferð þvingunarúrræða þar sem það er heimilt, sbr. t.d. V. kafla laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, en þar segir í 21. gr.: “Heimilt er stofnuninni að fela heilbrigðisnefnd eftirlit og framkvæmd þvingunarúrræða samkvæmt lögum þessum í umboði stofnunarinnar”.

Hér með er þess farið á leit við Umhverfisstofnun að sem fyrst verði gengið til samninga um ofangreind atriði. Óskað er eftir að sem allrafyrst verði unnið að samningi um framkvæmd eftirlits með fiskeldisstöðvum og málefnum sem snúa að olíubirgðastöðvum, enda er þar um að ræða stöðuga og viðvarandi starfsemi sem starfsmenn HAUST eru vel kunnugir.

Í svarbréfi Ust. til HAUST dags. 28.5.2004 segir m.a.: “Þá var sama mál rætt á vorfundi Umhverfisstofnunar og framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna og ákveðið að vinna samningsform um slíkt framsal í sameiningu frekar á næstu vikum.” Þrátt fyrir þetta hefur engin vinna farið fram og ekki verið kallað til fundar um málefnið, en þrír framkvæmdastjórar, þ.e. af Austurlandi, Vesturlandi og Reykjavík gáfu sig fram í slíkan vinnuhóp og hafa endurtekið óskað eftir fundum vegna málsins.

Heilbrigðisnefnd felur framkvæmdastjóra hér með að ítreka ofangreint erindi við Umhverfisstofnun og óska eftir að vinnu við framsal eftirfarandi þátta verði hraðað, enda er það trú heilbrigðisnefndar að með þessu móti verði eftirlit skilvirkara og í anda kröfu samtaka atvinnulífsins um einföldum á eftirliti:
1) Eftirlit með fiskeldisstöðvum sem Ust. vinnur starfsemi fyrir
2) Eftirlit með olíubirgðastöðvum og öðrum málefnum olíufélaganna sem Ust. hefur nú eftirlit með
3) Framsali á þvingunarúrræðum vegna eftirlits með sorpförgunarmálum, en slík heimild er í nýju lögunum um meðferð úrgangs.

3. Vatnsverndarsvæði í Bjólfinum við Stafdalsá.
Í kjölfar ábendingar frá íbúa á Seyðisfirði var stöðvuð vinna við grjótmölun á verndarsvæði við Stafdalsána í Seyðisfirði. Vinnu var aftur hleypt af stað með skilyrði um að olíuheldurdúkur yrði lagður undir og möl flutt í burtu til geymslu. Nú óskar Vegagerðin eftir heilmild heilbrigðisnefndar til að fá samt að geyma mölina (1000 tonn) á þessu svæði.

Umrætt landsvæði er innan flokks II á vatnsverndarskipulagi Seyðisfjarðar, þ.e. grannsvæði skv. skilgreiningu reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, sbr. eftirfarnandi í gr. 13.1.
II. flokkur. Grannsvæði.
Utan við brunnsvæðið skal ákvarða grannsvæði vatnsbólsins og við ákvörðun stærðar þess og lögunar skal taka tillit til jarðvegsþekju svæðisins og grunnvatnsstrauma sem stefna að vatnsbólinu. Á þessu svæði skal banna notkun á hættulegum efnum og birgðageymslu slíkra efna. Hér er m.a. átt við olíu, bensín og skyld efni, salt, eiturefni til útrýmingar á skordýrum eða gróðri og önnur efni sem mengað geta grunnvatn, auk efna sem sérstaklega eru tilgreind í reglugerð um neysluvatn. Ekki skal leyfa nýjar byggingar, sumarbústaði eða þess háttar á svæðinu. Vegalagnir, áburðarnotkun og önnur starfsemi innan svæðisins skal vera undir ströngu eftirliti.

Svæðið sem um ræðir er afar viðkvæmt, enda gljúp möl í bakka árinnar og hvers konar mengun á greiðan aðgang að vatnsbóli Seyðfirðinga.

Heilbrigðisnefnd hafnar beiðninni. Ef ekki er unnt að geyma efnið í grjótnámunni í Efri Staf verður að finna annan stað í samvinnu við heilbrigðisfulltrúa.

Minnt er á að starfsleyfi vatnsveitunnar rennur út í ár og að á vegum hennar verður að skipuleggja innra eftirlit. Í tengslum við þá vinnu er hvatt til ítarlegri merkinga á vatnsverndarsvæðinu.


Fundi slitið kl. 13:20

Fundargerðin færð í tölvu af Árna Jóhanni Óðinssyni og send fundarmönnum í tölvupósti til staðfestingar. Gerðin verður undirrituð á næsta snertifundi.

Ólafur H. Sigurðsson
Egill Jónasson
Benedikt Jóhannsson
Árni Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson
Þorsteinn Steinsson
Helga Hreinsdóttir
Árni J. Óðinsson

HAUST

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir
Bakka 1
765 Djúpavogur
Hafnarbraut 27
780 Höfn
haust@haust.is
474 1235

Search