Fundargerð aðalfundar Byggðasamlags um HAUST 2003

Aðalfundur byggðasamlags um Heilbrigðiseftirlit Austurlands
haldinn fimmtudaginn 30. október 2003 á Vopnafirði

Dagskrá:
1. Skýrsla stjórnar
2. Ársreikningar 2002
3. Umræða um liði 1 og 2
4. Erindi um eftirlit með leiktækjum og leikvöllum
5. Fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár 2004
6. Drög að nýrri gjaldskrá fyrir HAUST
7. Umræður um liði 5 og 6
8. Kjörinn löggiltur endurskoðandi
9. Kjörnir tveir skoðunarmenn ársreikninga og jafnmargir til vara
10. Önnur mál

a) Tillaga að breytingu á stofnsamningi
b) Ályktun

Mætt:
Úr Heilbrigðisnefnd: Ólafur Sigurðsson, Egill Jónasson, Bj. Hafþór Guðmundsson, Sigurður Ragnarsson, Þorsteinn Steinsson, Benedikt Jóhannsson og Benedikt Sigurjónsson
Starfsmenn: Helga Hreinsdóttir, Árni Jóhann Óðinsson, Júlía Siglaugsdóttir
Aðrir: Áki Guðmundsson, Cecil Haraldsson, Sigfríður Þorsteinsdóttir og Gunnþórunn Ingólfsdóttir

Fulltrúar eftirfarandi sveitarfélaga fóru með atkvæði sem hér segir:

Sveitarfélag

Fjöldi íbúa 1.12.2002

Fjöldi atkvæða
Nöfn fulltrúa sem fara með atkvæði sveitarfélags

Skeggjastaðahreppur

138
1

Áki Guðmundsson

Vopnafjarðarhreppur

762

3

Þorsteinn Steinsson

Norður-Hérað

286
2

Þorsteinn Steinsson skv. umboði

Fellahreppur

443

2


Fljótsdalshreppur

84

1

Gunnþórunn Ingólfsdóttir

Austur-Hérað

2061

7

Sigurður Ragnarsson

Seyðisfjarðarkaupstaður

749
3

Cecil Haralsson

Borgarfjarðarhreppur

140

1

Þorsteinn Steinsson skv. umboði

Fjarðabyggð

3057

10

Ólafur Hr. Sigurðsson

Mjóafjarðarhreppur

36

1

Þorsteinn Steinsson skv. umboði

Austurbyggð

845

3

Bj. Hafþór Guðmunsson skv. umboði

Fáskrúðsfjarðarhreppur

57
1

Breiðdalshreppur

267

2

Sigfríður Þorsteinsdóttir

Djúpavogshreppur

498

2

Bj. Hafþór Guðmundsson

Hornafjörður

2332

8

Egill Jónasson

Samtals:

11755

47

 

Ólafur Hr. Sigurðsson setti fundinn og bauð menn velkomna. Hann stakk upp á Benedikt Jóhannssyni sem fundarstjóra og starfsmönnum HAUST sem fundarriturum. Það var samþykkt.

Fundarstjóri tók við stjórn fundar og gengið var til dagskrár.

1. Skýrsla stjórnar: Ólafur Hr. Sigurðsson, formaður heilbrigðisnefndar flutti skýrsluna, en hún fylgir fundargerðinni.

2. Ársreikningar 2002 lagðir fram: Helga Hreinsdóttir, frkvst. kynnti reikningana sem höfðu verið kynntir á 41. fundi Heilbrigðisnefndar og staðfestir með undirskrift á þeim 42. Reikningarnir voru ennfremur undirritaðir af skoðunarmönnum og áritaðir af endurskoðendum, KPMG.
Tekjur samtals urðu 24,1 millj. eða 1,2 millj. kr. umfram áætlun. Tekjur af starfsleyfavinnslu fóru fram úr áætlun sem og tekjur af tóbakssöluleyfum. Rekstrarkostnaður varð 3,4 millj. lægri en áætlun og munar þar mest um að greidd laun voru 2,3 millj. undir áætlun. Á árinu var bifreið embættisins seld og ný keypt í staðinn. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 2,5 millj.

3. Umræða um liði 1 og 2
Til máls tóku: Sigurður Ragnarsson sem spurði um yfirtöku eftirlits með fleiri fyrirtækjaflokkum en sorpi og fiskimjölsverksmiðjum frá Umhverfisstofnun, Cecil Haraldsson einnig um yfirtöku eftirlits og um orðalag í ársreikningi, Benedikt Sigurjónsson og Sigfríður Þorsteinsdóttir um orðalag í ársreikningi. Egill Jónasson tjáði sig um ógreidda yfirvinnu.
Ársreikningarnir bornir upp og samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

4. Erindi um eftirlit með leiktækjum og leikvöllum: Árni og Júlía, heilbrigðisfulltrúar, fluttu erindi og kynntu með skyggnum hvaða þættir það eru sem heilbrigðiseftirliti ber að skoða á leiksvæðum, en skv. nýlegri reglugerð eru öll leiksvæði og leiktæki orðin starfsleyfisskyld.
Umræður urðu um faggildingu skoðunaraðila fyrir leikskóla, hve víðtæk skilgreining hugtaka á leiktækjum er og ennfremur rætt um kostnað við þetta eftirlit. Spurning vaknaði um ábyrgðir rekstraraðila ef slys verða. Ólafur Sigurðsson gerði grein fyrir reynslu sinni að standsetningu leiksvæða.

5. Fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár 2004: Helga Hreinsdóttir, frkvst. kynnti áætlunina. Gögn vegna fjárhagsáætlunar hafa verið send sveitarstjórnum, þ.e. fyrirtækjalistar hvers sveitarfélags með ósk um að leiðréttingar og athugasemdir af hálfu sveitarstjórna berist HAUST fyrir 15.11. 2003.

6. Drög að nýrri gjaldskrá fyrir HAUST lögð fram: Helga Hreinsdóttir kynnti nýja gjaldskrá. Annars vegar er um að ræða hækkun á tímagjaldi um 7% og hins vegar hækkun á kostnaði vegna rannsókna um 13%. Í annan stað er síðan um að ræða breytingar á gjaldskránni vegna tímabundinna verkefna tengdum stóriðju. Aðrar lítils háttar breytingar hafa orðið til að færa kostnað við eftirlitið nær raunkostnaði, þannig hafa t.d. gjöld vegna eftirlits á leikskólum og grunnskólum verið hækkuð vegna aukins eftirlits með leiktækjum og heilbrigðisfulltrúar hafa farið yfir fylgiskjal með gjaldskránni og breytt orðalagi og upphæðum lítillega til sanngirnisáttar.

7. Umræður um liði 5 og 6
Fyrirspurnir og umræður: Til máls tóku Þorsteinn Steinsson, sem spurði um hlutfall tekna vegna virkjanaframkvæmda og bentir á að hlutfall sé lágt. Cecil Haraldsson og Bj. Hafþór tjáðu sig um sama mál og Gunnþórunn Ingólfsdóttir sagði það sitt mat að Haust sinni hlutverki sínu vel á virkjanasvæði og að mikilvægt sé að ríkið komi að kostnaðarhlið málsins. Þorsteinn Steinsson spurði um hvort bifreiðar embættis séu á rekstrarleigu.
Helga svaraði fyrirspurnum.
Tekjuliður fjárhagsáætlunar samþykktur samhljóða með fyrirvara um breytingar á upphæðum ef athugasemdir eða leiðréttingar berast frá sveitarfélögum vegna fyrirtækjalista og með fyrirvara um leiðréttingu í samræmi við nýja gjaldskrá. Fjárhagsáætlun að öðru leyti samþykkt. Drög að nýrri gjaldskrá samþykkt samhljóða og framkvæmdastjóra falið að senda hana til sveitarfélaga til staðfestingar og til Hollustuháttaráðs til umsagnar.

8. Kjörinn löggiltur endurskoðandi
KPMG hefur verið endurskoðandi HAUST. Samþykkt samhljóða að KPMG verði áfram endurskoðandi

9. Kjörnir tveir skoðunarmenn ársreikninga og jafnmargir til vara
Skoðunarmenn hafa verið Stefán Bragason, Austur-Héraði og Ásta Guðmundsdóttir, Hornafirði. Varamenn hafa verið Jónas Jóhannsson, Norður-Héraði og Ólafur Áki Ragnarsson fyrrverandi sveitarstjóri á Djúpavogi.
Tillaga kom fram um óbreytta skipan skoðunarmanna að öðru leyti en því að Steinþór Pétursson, Austurbyggð, komi í stað Ólafs Áka, sem býr ekki lengur á Austurlandi. Tillagan samþykkt samhljóða.

10. Önnur mál
a) Tillaga að breytingu á stofnsamningi:
Tillaga að breytingu á stofnsamningi er eftirfarandi: Grein 5 hljóðar svo:
Til að vinna að verkefnum þeim, sem lög og reglugerðir kveða á um eða aðildarsveitarfélögin kjósa að unnið skuli að á vettvangi HAUST, skal á fyrsta aðalfundi byggðasamlagsins eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar kosin fimm manna heilbrigðisnefnd og jafnmargir til vara. Jafnframt skal kosinn einn fulltrúi náttúruverndarnefnda og einn til vara og leitað eftir tilnefningu eins fulltrúa og eins til vara frá samtökum atvinnurekenda á svæðinu.
Í stað hennar komi eftirfarandi:
Til að vinna að verkefnum þeim, sem lög og reglugerðir kveða á um eða aðildarsveitarfélögin kjósa að unnið skuli að á vettvangi HAUST, skal á fyrsta aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar kosin fimm manna heilbrigðisnefnd og jafnmargir til vara. Jafnframt skal kosinn einn fulltrúi náttúruverndarnefnda og einn til vara og leitað eftir tilnefningu eins fulltrúa og eins til vara frá samtökum atvinnurekenda á svæðinu.

Greinargerð: Það þykir kostur að embættum í heilbrigðisnefnd sé úthlutað í samhengi og á sama tíma og öðrum embættum og nefndarstörfum vegna samstarfsverkefna sveitarfélaga á Austurlandi, en kosið er í flest þeirra á SSA þingi.
Umræður um tillöguna: Til máls tóku, Cecil Haraldsson, Bj. Hafþór Egill Jónasson og Sigfríður Þorsteinsdóttir.
Tillagan borin upp og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum með fyrirvara um samþykki stjórnar SSA, enda er það skilningur fundarins að núverandi stjórn sitji út kjörtímabilið.

b) Borin upp eftirfarandi ályktun:
Aðalfundur HAUST haldinn 30.10.2003 á Vopnafirði styður stjórn HAUST í viðleitni til að fá samninga um eftirlit og jafnvel þvingunarúrræði með sem flestum málaflokkum frá Umhverfisstofnun og til heilbrigðisnefndar, enda fylgi tekjustofnar, og felur henni að vinna áfram að því máli. Ennfremur lýsir aðalfundurinn andstöðu sinni við hugmyndir um að færa eftirlit með matvælafyrirtækjum til ríkisrekinnar Matvælastofnunar. Aðalfundurinn telur mikilvægt að eftirlit sé framkvæmt af heimaaðilum sem hafa staðþekkingu. Aðalfundurinn telur æskilegt að smíð reglugerða og samræmandi reglna fari fram hjá ríkinu en að eftirlit fari fram á vegum sveitarfélaganna, þannig veita stjórnsýslustigin hvert öðru aðhald.

Formaður heilbrigðisnefndar þakkar mönnum góðan fund og heimamönnum sérlega góða móttöku. Hann óskaði mönnum góðrar heimferðar og sleit fundi kl.17:30.

Fundarritarar
Árni Jóhann Óðinsson og Helga Hreinsdóttir

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search