Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2004

Lögð fyrir aðalfund 2004, á Seyðisfirði 27.10.2004

Nefndarfundir:
Frá seinasta fundi hafa verið haldnir átta fundir í stjórn. Þar af tveir snertifundir en sex símfundir. Einn þeirra var skyndifundur vegna þvingunarúrræða.

Heilbrigðisnefnd:
Skipan heilbrigðisnefndar hefur veri óbreytt á árinu og aðalmenn hafa mætt vel á fundi. Þeir eru því vel að sér í málum heilbrigðiseftirlits og yfirleitt mjög samstíga í ákvörðunum.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða
Hafa ekki fundað á árinu. Því hefur ekki verið kostnaður af ferðum vegna þeirra. Aðalfundur samtakanna hefur verið boðaður þann 4.11. nk. Nýr umhverfismálaráðherra mun þá hitta formenn og framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitssvæðanna 10 í landinu.

Starfslið
Tveir nýir starfsmenn komu til liðs við HAUST í byrjun janúar 2004. Sigrún Hallgrímsdóttir, sem sinnir aðallega Hornafjarðarsvæðinu og Leifur Þorkelsson, sem var ráðinn tímabundið til tveggja ára vegna aukinna verkefna tengdum stóriðjuframkvæmdum. Hann sinnir aðallega matvælaeftirliti, en einnig fisverkunarfyrirtækjum.

Báðir þessir nýju starfsmenn sóttu námskeið til að öðlast réttindi sem heilbrigðisfulltrúar og fengu leyfisbréf ráðherra nú á haustdögum.

Starfslið er nú skipað á eftirfarandi:

Helga Hreinsdóttir, frkvst. 100%
Árni Jóhann Óðinsson, staðgengill 100%
Júlía Siglaugsdóttir 60%
Hákon I. Hansson 35%
Sigrún Hallgrímsdóttir 50%
Leifur Þorkelsson 100%
Samtals stöðugildi: 445%

Húsnæðismál
Í janúar var tekin á leigu viðbótaraðstaða á Egilsstöðum. Þrír af starfsmönnum HAUST búa á Egilsstöðum og starfsaðstaða þar sparar bæði akstur og tíma, auk þess sem verkefni tengd virkjanaframkvæmdum hafa verið áberandi þung á árinu og aðstaða nær mestu umsvifum er til hægðarauka. Aðalskrifstofa HAUST er á Reyðarfirði, en auk þess er leigð aðstaða á Breiðdalsvík eins og verið hefur sem og á Höfn.

Eftirlitsáætlun
Eftirlitsáætlun ársins 2003 stóðst en ekki var auðvelt að ná yfirferð í öll fyrirtæki, bæði vegna skorts á starfsmanni á Hornafjarðarsvæðinu í lok árs 2003 og vegna mikilla verkefna vegna virkjanaframkvæmda. Árið 2004 hefur einnig verið allerfitt, enda tekur þjálfun nýrra starfsmanna mikinn tíma og mikið verið um óvænt verk og uppákomur. Þó hafa flestöll fyrirtæki á eftirlitsskrá þegar verið heimsótt á árinu 2004 og ekki ástæða til annars en ætla að það takist.

Menntun og endurmenntun
Auk þess sem Leifur og Júlía sóttu sér menntun á sviði heilbrigðiseftilrits fóru Helga og Hákon í endurmenntun með því að sækja ráðstefnu um öryggi matvæla í Berlín. Efni ráðstefnunnar var afar menntandi og gagnlegt fyrir störf heilbrigðisfulltrúa. Á næstu dögum eru væntanlegir geisladiskar með efni ráðstefnunnar og þá verður unnt að kynna samstarfsmönnum helstu erindin. Haustfundur Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlist var haldinn í sl. viku. Vegna óveðurs, sóttu aðeins Helga og Hákon fundinn. Nokkur erindi af fundinum eru þegar á heimasíðu Umhverfisstofnunar, ust.is fyrir þá sem fræðast vilja.

Efst á baugi í eftirliti
Stóriðja, gangnagerð og starfsmannabúðir
Miklar annir hafa verið á árinu vegna stóriðjuframkvæmda á Kárahnjúkasvæði og einnig vegna undirbúnings og fyrstu framkvæmda við álver á Reyðarfirði.

Eftirlit með verktökum á hálendinu er tafsamt og erfitt, þó miserfitt eftir verktökum. Mikill tími fer í að sækja upplýsingar og ná fram úrbótum og eftirfylgniferðir taka mikinn tíma bæði í bréfaskriftum og ferðalögum.

Fundarhöld vegna undirbúnings framkvæmda á Reyðarfirði hafa verið mikil og meiri en ella þar sem um marga stóra undirverktaka er að ræða og rekstur vinnubúða, mötuneyti o.þ.h. verður ekki á ábyrgð framkvæmdaraðila eða þess sem reisir aðstöðuna. Fyrirtækin hafa því gert kröfu um að HAUST samræmi og tryggi sameiginlegan skilning.

Til marks um umfang vinnu vegna stóriðju og jarðgangnagerðar er að í dreifbýli eru nú 9 verktakar með 18 starfsmannabúðir, flestar með 50-150 íbúa en þær stærstu um 750. Auk þessa eru allmargar starfsmannabúðir og starfsmannabústaðir í þéttbýliskjörnum, t.d. á Reyðarfirði og Eskifirði. Auk starfmannabúða eru verkefni tengd verkstæðum, steypustöðvum, malartekju o.fl. á verksviði HAUST.

Neysluvatn
Í sumar voru miklir þurrkar og lentu bændur í vatnsskorti. Nokkrar vatnsveitur þéttbýliskjarna lentu líka í vandræðum vegna þurrka og þar sem yfirborðsvatn var tengt inn á vatnsveitur til að bjarga málum kom í nokkrum tilfellum upp alvarleg gerlamengun og þurfti að hvetja íbúa til að sjóða vatn. Ekki tók betra við þegar haustrigningar hófust, því þá barst yfirborðsvatn í vatnsból.

Reynsla sumarsins og haustins nýtist vonandi til þess að sveitarstjórnir leggi fé til verndar vatnsbóla og innra eftirlits með þessum mikilvægustu matvælafyrirtækjum hvers sveitarfélags.

Fráveitur
Á Austurlandi er enn langt í land með að ásættanlegur árangur hafi náðst í fráveitumálum. Nokkur sveitarfélög hafa sinnt dreifbýlinu mjög vel og stuðlað að rotþróavæðingu auk þess að setja sér samþykktir um þjónustu við þær. Í þéttbýliskjörnum þokast mál rólega, en rétt er að benda á að lög um styrki frá Umhverfisráðuneyti vegna fráveituframkvæmda verða væntanlega endurnýjuð. Á Austurlandi er þó vaxtarbroddur í fráveitumálum, þar sem skólphreinsivirki sem byggja á svokallaðir "active sludge" virkni hafa verið tekin í notkun. Um næstu áramót verða fimm slík hreinsivirki komin í notkun á Héraði og eitt á Reyðarfirði. Reynslan af þessum hreinsivirkjum er enn sem komið er mjög góð.

Átaksverkefni í eftirliti:
Ís úr vél og önnur átaksverkefni á sviði matvæla
Eins og áður er mikil áhersla lögð á að taka þátt í átaksverkefnum á vegum matvælasviðs Umhverfistofnunar. Eitt þeirra var ís úr vél. Því miður varð niðurstaðan sú að takmarka þurfti leyfi tveggja starfsstöðva á Austurlandi og banna þeim sölu á ís úr vél, því fjögur sýni með tækifærum til úrbóta milli sýnatöku skiluðu ekki árangri. Önnur verkefni voru merkingar á barnamat, campylobacter í kjúklingum, bollur á bolludag, nítrat í saltkjöti o.lf.
Sundlaugar og tjaldstæði
Sérstakt átak var gert í eftirliti með sundlaugum og tjaldstæðum á vegum HAUST. Niðurstöður þeirra verða birtar með ársskýrslu við lok árs.

Leikvellir og leiktæki
Skv. hollustuháttareglugerð nr. 941/2002 eru hvers konar leikvellir og leiktæki önnur en þau sem eru inni á einkalóðum starfsleyfisskyld. Mikil vinna hefur farið í grunnúttektir á þessum tækjum og völlum. Á næstunni verður farið í að vinna starfsleyfi vegna þessa.

Rafmangsverkstæði, meindýraeiðar og garðaúðun
Rafmagnsverkstæði eru starfsleyfisskyld skv. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og meindýraeyðar og garðaúðun skv. hollustuháttareglugerð nr. 941/2002. Á árinu hefur verið unnið að því að ná utan um þessa starfsemi og hvetja menn til að sækja um starfsleyfi.

Litlar vatnsveitur
þ.e. vatnsveitur sem þjóna ekki þéttbýliskjörnum, heldur matvælaframleiðslu til sveita, sumarhúsasvæðum og samveitur eru starfsleyfisskyldar. Í samræmi við stefnumörkun heilbrigðisnefndar um að ná utan um þessa starfsemi á árunum 2003-2005 hafa allmargar vatnsveitur mjólkurbænda og ferðaþjónustu verið skoðaðar og gefin út starfsleyfi fyrir þær.

Annað
Yfirtaka eða framsal eftirlits frá Umhverfisstofnun
Eins og kunnug er hefur HAUST um margra ára skeið haft með höndum eftirlit með fiskimjölsverksmiðjum og sorpförgunarstöðum á Austurlandi, þótt Umhverfisstofnun vinni starfsleyfi og fari með þvingunarúrræði fyrir starfsemina.

Af hálfu HAUST hefur endurtekið verið farið fram á að fá eftirlit með fleiri tegundum starfsemi framselda frá Umhverfisstofnun. Helst er þar að nefna eftirlit með stóru fiskeldisstöðvunum, olíubirgðastöðvum og síðar álveri. Ennfremur er nú lagaheimild skv. nýju úrgangslögunum til að framselja þvingunarúrræði með sorpförgunarstöðvum og hefur HAUST einnig óskað eftir að fá þau framseld. Umhverfisstofnun hefur hingað til hafnað þessari málaleitan alfarið, þrátt fyrir bréflega túlkun Umhverfisráðuneytis á að stefna stjórnvalda sé að færa eftirlit sem næst starfseminni og yfirlýsingu um að HAUST sé vel mannað og að mati Umhverfisráðuneytis fært um að taka yfir viðbótarverkefni.

Í október barst bréf frá Umhverfisstofnun þar sem tilkynnt var að eftirlit með fiskeldi yrði framselt þegar fiskeldi sem fagrein hefði náð nokkrum þroska, en öll tormerki virðast vera á að fá fleiri verkefni færð milli stofnana.

Umræða um matvælastofnun
hefur legið í láginni um nokkurn tíma. Af og til skýtur henni þó upp og nú nýlega í máli Umhverfismálaráðherra í móttökum fyrir fræðimenn á sviði matvæla og á haustþingi Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits. Full ástæða er til að beina því til sveitarstjórnarmanna að þeir kynni sér málin vel og móti sér skoðun um hvar þeir telji eftirlit með matvælum vera best komin, hjá ríki eða sveitarfélögum. Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða eru þeirrar skoðunar að sameina þurfi undir einu ráðuneyti og í eina stofnun þeim stofnunum sem sinna málefnum matvæla hjá ríkinu, en að betur fari að sveitarfélögin sjái um eftirlit með matvælum en að því sé stjórnað frá höfuðborginni.

Ólafur Sigurðsson formaður heilbrigðisnefndar

Helga Hreinsdóttir frkvstj. HAUST

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search