Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2005

Lögð fyrir aðalfund 2005 á Höfn 12.10.2005 efndarfundir
Frá aðalfundi 2004 hafa verið haldnir sex fundir alls, fjórir símfundir en tveir snertifundir.

Heilbrigðisnefnd
Í sumar féll frá Egill Jónasson, sem setið hefur í heilbrigðisnefnd til fjölmargra ára og er mikil eftirsjá að honum. Björn E. Traustason hefur verið skipaður aðalmaður af suðursvæði í hans stað og Elín Magnúsdóttir tekur sæti varamanns í stað Björns. Björn Hafþór tók sæti Egils sem varaformaður. Að öðru leyti er heilbrigðisnefnd óbreytt og samstarf í nefndinni lipurt.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða SHÍ
Einungis einn fundur hefur verið í SHÍ, en það var í nóvember í fyrra, þegar Sigríður Anna Þórðardóttir, þá nýr umhverfisráðherra hitti formenn og framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitssvæðanna. Formaður og framkvæmdastjóri HAUST sátu fundinn.

Starfslið
Þar sem fyrirséð er að verkefni vegna virkjana og álvers munu vera mikil fram á árið 2007 hefur Heilbrigðisnefnd samþykkt að tímabundinn samningur við Leif Þorkelsson verði framlengdur um tvö ár. Sigrún Hallgrímsdóttir, sem starfaði á Hornafjarðarsvæðinu árið 2004 hætti í desember. Í hennar stað var á vordögum ráðinn Borgþór Freysteinsson.

Starfslið er nú skipað á eftirfarandi:
Helga Hreinsdóttir, frkvst 100%
Árni Jóhann Óðinsson, staðgengill fkvstj. 100%
Júlía Siglaugsdóttir 60%
Hákon I. Hansson 35%
Borgþór Freysteinsson 40%
Leifur Þorkelsson 100%
Samtals stöðugildi: 445%

Húsnæðismál
Þegar sveitarstjórnarskrifstofur Fjarðabyggðar voru fluttar frá Búðareyri 7 á Reyðarfirði og í Molann skapaðist óvissa um aðstöð þá sem Haust hefur haft að Búðareyri 7. Nýverið tókust samningar við nýjan eiganda hússins um áframhaldandi leigu, þannig að póstfang og lögheimili HAUST fær enn að vera það sama. Auk þessa eru nú reknar skrifstofur á Egilsstöðum, á Breiðdalsvík og á Höfn.

Eftirlitsáætlun
Eftirlitsáætlun ársins 2004 stóðst í öllum aðalatriðum.
Í raun má segja að eftirlitið sé orðið þríþætt:

a) Eftirlit og starfsleyfisvinnsla fyrir hefðbundin fyrirtæki og stofnanir í
byggð
b) Eftirlit og starfsleyfisvinnsla fyrir tímabundna starfsemi í tengslum við
stórframkvæmdir
c) Vinna við ný verkefni, svo sem leikvelli, litlar vatnsveitur o.þ.h. sem
breytingar á lögum/reglugerðum færa heilbrigðiseftirliti.

Festa er í eftirliti skv. a-lið, mikið ófyrirséð og skorpuvinna er í tengslum við b-liðinn og erfiðara hefur reynst að ná utan um litlar vatnsveitur en vonast hafði verið til. Fyrirséð er að verkefnið mun dragast fram á árið 2006.

Efst á baugi í eftirliti
Stóriðjuframkvæmdir
Nokkur festa er nú komin á vinnusvæði og starfsmannabúðir í tengslum við sjálfa Kárahnjúkavirkjun, en línulagnir, virkjun við Lagarfoss o.fl. hliðaráhrif eru enn að koma í ljós. Á álverslóð á Reyðarfirði eru starfsmannabúðir vegna byggingafarmkvæmda langt komnar, en byggingar á matstofum, verkstæðum og annarri tímabundinni aðstöðu vegna byggingar álvers rísa nú óðum auk þess sem mikil vinna liggur í umsögnum um teikningar og undirbúningi fyrir fjölbreytta starfsemi á álverslóðinni. Þótt HAUST vinni ekki starfsleyfi fyrir álverið sjálft, þá verða mötuneyti, verkstæði og ýmis þjónusta á álverslóðinni starfsleyfis- og eftirlitsskyld af hálfu HAUST.
Eftirfarandi tafla sýnir fjölda starfsleyfa sem eru nú í gildi vegna tímabundinnar starfsemi.

Fljótsdalshreppur
25
Fljótsdalshérað
35
Fjarðabyggð
10
Samtals
70 starfsleyfi


Neysluvatn
Mikil áhersla er lögð á að vinna starfsleyfi fyrir litlar vatnsveitur sem þjóna matvælafyrirtækjum og eða smærri þéttbýliskjörnum og sumarbústaðabyggðum.

Því miður hafa stærri vatnsveitur ekki lokið vinnu við að koma á innra eftirliti eins og öllum matvælafyrirtækjum ber að gera. Þannig uppfyllir núna engin af stærri vatnsveitunum á Austurlandi skilyrðum sem gera ber til vatnsveitna.

Fráveitur
Á Austurlandi er enn langt í land með að ásættanlegur árangur hafi náðst í fráveitumálum.
Þó eru nokkrir mjög ánægjulegir vaxtarsprotar. Þannig hafa á árinu verði gefin út starfsleyfi fyrir 7 skólphreinsistöðvar, sem eiga að geta hreinsað skólp í samræmi við kröfur fráveitureglugerðar. Mismiklar kröfur eru gerðar til stöðvana eftir því hvaða viðtaki er fyrir frárennsli frá þeim. Um er að ræða þrjá mismunandi rekstraraðila stöðvanna og mismunandi gerðir stöðva, en greinilegt að með góðum tæknibúnaði er unnt að hreinsa fráveitu á fullkominn máta. Þessi tækni opnar nýja möguleika fyrir sveitarfélögin í fráveitumálum.

Hvað varðar úrbætur í fráveitumálum í dreifbýli, þá eru litlar framfarir. Þó er í Borgarfjarðarhreppi unnið að lokaátaki í rotþróavæðingu sumarhúsa og í Djúpavogshreppi er stefnt að rotþróavæðingu sveitarinnar, a.m.k. að hluta til.

Leiksvæði og opnir leikvellir
Unnið hefur verið að úttektum á leiksvæðum og leikvöllum til að undirbúa starfsleyfavinnslu fyrir þessa aðstöðu.

Átaksverkefni í eftirliti:
Mikil áhersla hefur verið lögð á þátttöku í átaksverkefnum, sem Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlitssvæðin standa að. Á árinu 2005 má nefna eftirfarandi verkefni: Örverufræðileg könnun á kjúklingum, eggjum og eggjavöru, svínakjöti, grænmeti, lambakjöti (grillkjöt og svið).

Annað
Yfirtaka eða framsal eftirlits frá Umhverfisstofnun
Enginn árangur hefur náðst varðandi samninga um yfirtöku eftirlits með fleiri fyrirtækjaflokkum sem Umhverfisstofnun vinnur starfsleyfi með. Á aðalfundi SSA var ályktað um málið og á eftir að koma í ljós hvort það skilar árangri.

Ólafur Hr. Sigurðsson, formaður heilbrigðisnefndar
Helga Hreinsdóttir frkvstj. HAUST

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search