Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2006

Lögð fyrir aðalfundi á Egilsstöðum 11. september 2006

Nefndarfundir
Frá aðalfundi 2004 hafa verið haldnir átta fundir alls. Sex sinum var fundað símleiðis en í tvígang hittist nefndin og í kjölfar annars snertifundarins var farið í skoðunarferð um álverslóð Bechtel/Alcoa á Reyðarfirði.

Heilbrigðisnefnd
Heilbrigðisnefnd hefur ekki breyst á þessu starfsári. Nokkrir nefndarmanna hafa nú starfað í nefndinni bæði kjörtímabilin frá stofnun Byggðasamlagsins og höfðu jafnvel komið að starfi heilbrigðisnefnda áður. Innan nefndarinnar er því góða þekking á viðfangsefnum heilbrigðiseftirlits. Nokkrir af nefndarmönnunum hafa verið kjörnir til áframhaldandi setu í nefndinni og er það vel, því hér er um yfirgripsmikinn málaflokk að ræða.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða SHÍ
Í landinu eru nú 10 heilbrigðiseftirlitssvæði, þ.e. 10 heilbrigðisnefndir. SHÍ eru samtök formanna og framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitssvæðanna. Samtök þessi voru stofnuð árið 2000 til að styrkja tengsl heilbrigðisnefnda en einnig til að Samtök atvinnulífsins, umhverfisráðuneyti o.fl. gætu snúið sér til eins aðila varðandi fyrirspurnir og stefnumörkun.
Fyrir ári var Ólafur Hr. Sigurðsson, formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands, kjörinn formaður SHÍ. Aðalfundur samtakanna verður haldinn á Egilsstöðum þann 25.10. og mun Umhverfisráðherra ávarpa fundinn.

Starfslið
Í upphafi árs 2004 fékkst heimild til að ráða starfsmann í fulla stöðu tímabundið vegna mikils álags við virkjana- og stóriðjuframkvæmdir. Gert var ráð fyrir viðbótarstarfsmanni til ársloka 2007. Leifi Þorkelssyni sjávarútvegsfræðingi, sem ráðinn var, bauðst framtíðarstarf á höfuðborgarsvæðinu og hætti vinnu hjá HAUST í lok ágúst sl. Unnið er að því að fylla í hans skarð.
Starfslið og stöðugildi eru nú þannig:
Helga Hreinsdóttir, frkvstj. 100%
Árni Jóhann Óðinsson, staðgengill frvstj. 100%
Júlía Siglaugsdóttir 60%
Hákon I. Hansson 35%
Borgþór Freysteinsson 40%
NN 100%
Samtals stöðugildi: 435%

Eftirlitsáætlun 2005
Eftirlitsáætlun ársins 2005 stóðst í öllum aðalatriðum. Ekki er ástæða til að rekja starfið frekar hér, en vísað til ársskýrslu 2005, sem send hefur verið sveitarfélögunum og var m.a. lögð fram á aðalfundi SSA í sl. viku.

Efst á baugi í starfseminni

Stóriðjuframkvæmdir
Á Kárahnjúkasvæðinu má gera ráð fyrir að hámarksvinna, hvað aðkomu HAUST snertir, hafi verið á árinu 2006. Impregilo gerir þó ráð fyrir að vera með starfsemi á svæðinu allt fram á árið 2009. Eitthvað mun draga úr á árinu 2007, en á móti kemur að vinna við Hraunaveitur mun aukast. Í Fljótsdal verða allmikil umsvif fram á árið 2008 og á álverslóð þarf að gera ráð fyrir áframhaldandi vinnu fram á næsta ár.

Matvælaeftirlit
Matvælafyrirtækjum ber að viðhafa innra eftirlit með eigin starfsemi til að tryggja öryggi og gæði framleiðslunnar. Því miður virðast allt of margir matvælaframleiðendur ekki sjá sér hag í að viðhafa virkt og sýnilegt innra eftirlit. Allir frestir til að koma innra eftirliti á eru nú liðnir og mikilvægt er að ganga hart eftir að svo sé. Þetta hefur kallað á eftirfylgniferðir og allmikla aukavinnu starfsmanna.

Samvinna við byggingarnefndir og framkvæmdaraðila
hefur aukist og batnað til muna á undanförnum árum.
Fundarboð til byggingarnefnda berast nú HAUST í auknum mæli á tölvutæku formi, þannig að unnt er að bregðast við og hafa samráð um málefni, sem HAUST hefur aðkomu að áður en kemur til framkvæmda
Í auknum mæli hafa væntanlegir framkvæmdaaðilar samráð við HAUST, leita upplýsinga um lög og reglur fyrir viðkomandi starfsemi og senda teikningar snemma á hönnunarferli til umsagnar eða álits.
Þessi þróun er að mati HAUST jákvæð og sparar eftirlitinu tíma og framkvæmdaaðilum oft peninga á seinni stigum.

Vinna við skipulagsgerð sveitarfélaganna
fer væntanlega af stað hjá sveitarfélögum í kjölfar sveitarstjórnarkosninga. HAUST er umsagnaraðili og mun í umsögn hvetja sveitarfélög til að merkja inn á skipulög gamla urðunarstaði, bæði fyrir almennt sorp, staka hauga til sveita sem og gryfjur fyrir sláturúrgang og riðufé. Slíkir staðir takmarka landnotkun ekki síður en vatnsverndarsvæði, sem skylt er að merkja inn á skipulög.

Stjórnsýslukærur
Á vordögum bárust HAUST tvær stjórnsýslukærur.
Annars vegar kærði Impregilo það ákvæði í gjaldskrá að tímabundnar stóriðjuframkvæmdir væru gjaldteknar með 30% hærra tímagjaldi en hefðbundin starfsemi í byggð. Úrskurðarnefnd kærumála á vegum Umhverfisráðuneytis úrskurðaði kæranda að með gjaldskránni væri brotin jafnræðisregla og að öll fyrirtæki á eftirlitssvæðinu ætti að gjaldtaka eins. Í kjölfar úrskurðarins hafa viðkomandi fyrirtækjum verið endurgreidd oftekin gjöld og vegna þessa þarf að breyta gjaldskrá HAUST. Úrskurðurinn hefur í för með sér allmikla hækkun á íbúaframlagi sveitarfélaganna til rekstrar HAUST.
Ekki hefur verið úrskurðað í seinni stjórnsýslukærunni, en hana lagði RARIK fram til að fá hnekkt kröfu HAUST um að kyndistöð varaafls í Neskaupstað sé starfsleyfis- og eftirlitsskyld.

Annað
Yfirtaka eða framsal eftirlits frá Umhverfisstofnun
Enginn árangur hefur náðst varðandi samninga um yfirtöku eftirlits með fleiri fyrirtækjaflokkum sem Umhverfisstofnun vinnur starfsleyfi með. Á aðalfundi SSA 2005 var ályktað um málið og fulltrúar Umhverfisstofnunar mættu ásamt frkvstj. SSA á fund Heilbrigðisnefndar í janúar 2005. Ekkert hefur þokast frá þeim fundi.


Ólafur Hr. Sigurðsson
formaður heilbrigðisnefndar

Helga Hreinsdóttir
frkvstj. HAUST

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search