Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2007

Lögð fyrir aðalfundi á Reyðarfirðir 07. nóvember  2007

Heilbrigðisnefnd:
Ný heilbrigðisnefnd var skipuð á í kjölfar sveitarstjórnarkosninga árið 2006 og tók hún til starfa í kjölfar aðalfundar í október 2006.  Einungis þrír af sjö nefndarmönnum voru í fyrri nefndinni og nýr formaður hefur eins og aðrir nefndarmenn lagt á sig vinnu til að setja sig inn í málefni heilbrigðiseftirlits.

Nefndarfundir.
Frá aðalfundi 2006 hafa verið haldnir átta fundir, þar af fimm símfundir.  Snertifundir hafa verið sem hér segir: Fyrsti fundur nýrrar nefndar í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 2006 var haldinn á Breiðdalsvík.  Í febrúar var fundað á Egilsstöðum, en þá komu fulltrúar frá Umhverfisráðuneytinu til að kynna nefndinni tengsl Umhverfisráðuneytis við heilbrigðisnefndir og fjalla um lagaumhverfið.  Í maí var svo farin skoðunarferð um Fljótsdal og á Teigsbjarg, þar sem virkjanaframkvæmdir voru skoðaðar og síðan fundað á Skriðuklaustri.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða SHÍ
SHÍ eru samtök formanna og framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitssvæðanna.  Samtök þessi voru stofnuð árið 2000 m.a. til að heilbrigðisnefndir í landinu myndi samnefnara sem Samtök sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, umhverfisráðuneyti o.fl. geta leitað til varðandi fyrirspurnir og stefnumörkun.
Núverandi formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands tók við sem formaður SHÍ af Ólafi Hr. Sigurðssyni, sem var formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands fram að seinasta aðalfundi.

Starfslið
Eins og hjá öðrum heilbrigðiseftirlitssvæðum er mikill stöðugleiki  í starfsmannahaldi hjá HAUST.  Eftirfarandi starfsmenn hafa unnið hjá HAUST í 2 til rúmlega 20 ár, þannig að víðtæk reynsla og þekking liggja í mannauði eftirlitsins. 

Helga Hreinsdóttir, frkvstj., næringarfræðingur og kennari 
 100%
Árni Jóhann Óðinsson, staðgengill frkvstj., líffræðingur og kennari
 100%
Júlía Siglaugsdóttir, grunnskólakennari með raungreinaval, heilbrigðisfulltrúi  60%
Hákon I. Hansson, dýralæknir, heilbrigðisfulltrúi 35%
Borgþór Freysteinsson, mjólkurfræðingur, starfsmaður HAUST  
 40%

 

Leifur Þorkelsson, sjávarútvegsfræðingur, sem var ráðinn í viðbótarstöðu vegna anna þegar stórframkvæmdir á hálendinu hófust fór í framtíðastarf á höfuðborgarsvæðinu í ágúst 2006.  í hans stað var í desember gengið til samninga við Freydísi Dönu Sigurðardóttur, dýralækni, og hún ráðin í 50% stöðu.  Til að anna eftirliti ársins 2007 var ráðinn sumarmaður, Birgir Óskarsson, jarðfræðingur, auk þess sem Leifur vann fyrir HAUST í nokkrar vikur í sumar.  Samtals hafa því stöðugildi ársins 2007 verið u.þ.b. 4 talsins, sem er minnkun frá árinu 2006, en þá voru stöðugildi 4.35.

Eftirlits- og fjárhagsáætlanir
Áætlanir ársins 2006 stóðst í öllum aðalatriðum og er í því sambandi vísað til ársskýrslu 2006, sem hefur verið send sveitarfélögunum og var m.a. lögð fram á aðalfundi SSA 2007.   Ekki verður annað séð en að áætlanir fyrir árið 2007 gangi upp á svipaðan máta og verið hefur.  

Efst á baugi í starfseminni og áherslur framundan

Stóriðjuframkvæmdir
Á virkjanasvæðinu við Kárahnjúka og í Fljótsdal sér nú fram á samdrátt og fækkun eftirlitsverkefna, það sama er að segja um framkvæmdir við álverið á Reyðarfirði.  Á virkjanasvæðinu verður áfram unnið á Axará (Adit 2) og verða bæði Impregilo og Landsvirkjun með starfsmannabúðir þar auk þess sem Arnarfell verður áfram með 2 starfsmannabúðir við Hraunaveitur og allmargar starfsleyfisskyldar einingar, þ.e. verkstæði o.þ.h.  Í tengslum við álverið og uppbyggingu iðnaðarhverfis á Reyðarfirði verður Suðurverk væntanlega með vinnuflokk í starfsmannabúðum eitthvað fram eftir árinu 2008.  Megin vinnan seinni part árs 2007 og fram á sumar 2008 mun liggja í eftirliti með frágangi, þar sem verk hafa verið á eftir áætlun og mannvirki sem áformað var að fjarlægja 2007 verða látin standa fram á vor 2008.  Áætlað er að eftirlit með framkvæmdum á Hraunaveitum og svo með  frágangi o.fl. þ.h. verði a. m.k. fram á árið 2009.

Neysluvatn
Á sl. þrem árum hafa verið unnin starfsleyfi fyrir mjög margar einkavatnsveitur auk þess sem innra eftirliti hefur loks verið komið á fyrir stærri vatnsveitur í opinberum rekstri.  Aðeins einu sinni hafa verið tekin svokölluð heildarsýni til að kanna efna- og eðlisfræðileg gæði vatns í stærstu veitunum, en fyrirhugað er að gera það á næsta ári og hefur viðkomandi veitum verið tilkynnt um það.  mikilvægt er að það verði gert fljótt aftur.  Eftirlitsstofnun Evrópusambandsins, ESA, hefur nýverið kallað eftir upplýsingum um vatnsveitur á öllu landinu í ýtarlegu spurningablaði.

Matvælaeftirlit
Með innleiðingu svokallaðs “Hygiene-pakka” Evrópusambandsins breytast áherslur í eftirliti á sviði matvæla.  Nokkur námskeið hafa þegar verið haldin og hafa starfsmenn HAUST sótt þau eftir föngum, enda ekki vanþörf á hvers konar endur- og símenntun á þessu sviði.  Um næstu áramót verður matvælaeftirlit á vegum ríkisins sameinað í eina stofnun og matvælasvið fara frá Umhverfisstofnun.  Skv. þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir eru ekki áform um að breyta verksviði heilbrigðisnefnda hvað varðar matvælaeftirlit en yfirstjórn matvælaeftirlits mun fara frá Umhverfisráðuneytinu, þannig að verkefni heilbrigðiseftirlits munu heyra undir tvö ráðuneyti.

Rannsóknir

Í ársbyrjun 2006 var rannsóknastofa Umhverfisstofnunar sameinuð öðrum rannsóknastofum sem ríkið rak og breytt í Matís ohf.  Þrátt fyrir að magnafsláttur hafi minnkað og gjaldskrá hækkað hefur HAUST skipt við þá rannsóknastofu áfram, enda aðrar stofur með svipaðar gjaldskrár og tæknilega misauðvelt að koma gögnum til þeirra.  

Hollustuháttaeftirlit

Heilbrigðiseftirliti hefur í vaxandi mæli verið falið eftirlit með slysavörnum án þess að skilgreiningar og fullnægjandi leiðbeiningar hafi fylgt að okkar mati.  Ábyrgð í þessum málaflokki er mikil og snýr að stórum hluta að sveitarfélögunum, t.d. varðandi sundlaugar, leikvelli, íþróttavelli o.þ.h.   Samvinna við eignadeildir og skipulags- og byggingarnefndir sveitarfélaga er því enn brýnni en oft áður.

Áætlanagerð fyrir árið 2008
Eins og fram kemur hér að ofan eru allmiklar breytingar, samdráttur í stórframkvæmdum, framundan og afar erfitt að fá upplýsingar um hvenær og hvernig þeim mun háttað.  Þetta veldur erfiðleikum í áætlanagerð fyrir árið 2008.  Í áætlun er gert ráð fyrir að stöðugildi sem leyfi fékkst fyrir í upphafi stórframkvæmda verði aðeins nýtt til hálfs til að mæta fækkun verkefna.  Komi hins vegar til þess að samdráttur tefjist eða jafnvel að ný eftirlitsverkefni fáist gæti þurft að íhuga ráðningu tímabundinnar aðstoðar um sumarið.

Yfirtaka eða framsal eftirlits frá Umhverfisstofnun
Ekki hafa orðið breytingar á samningum um eftirlitsverkefni f.h. Umhverfisstofnunar.  HAUST fer með eftirlit með fiskimjölsverksmiðjum og sorpförgun f.h. stofnunarinnar, en sækist enn sem áður eftir fleiri verkefnum.  Aðalfundir SSA hafa endurtekið ályktað um málið og af hálfu Umhverfisráðuneytis er ekki andstaða við framsal verkefna.  Vonir eru bundnar við að unnt verði að hreyfa við málinu gagnvart Umhverfisstofnun á næstu mánuðum.

Valdimar O. Hermannsson           
formaður heilbrigðisnefndar           

Helga Hreinsdóttir
frkvstj. HAUST

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search