Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2008

flutt af Valdimar Hermannssyni  formanni heilbrigðisnefndar á aðalfundi 5. nóvember 2008.

 

Heilbrigðisnefnd:
Ein breyting var gerð á skipan í heilbrigðisnefnd síðsumars 2008 er Árni Kristinsson var skipaður aðalmaður í stað Sigurðar Ragnarssonar sem annar fulltrúi norðursvæðis í nefndinni.  Sigurður hafði starfað í nefndinni í tvö kjörtímabil og eru honum þökkuð vel unnin störf.  

Nefndarfundir.
Frá aðalfundi 2007 hafa verið haldnir sjö fundir, þar af sex símfundir.  Snertifundur var einn og var hann haldinn á Höfn í Hornafirði í maí og voru þá skoðuð fyrirtæki á svæðin.  Nefndin fékk einstaklega góðar móttökur heimamanna og er þakklát fyrir það.  

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða SHÍ
Formaður heilbrigðisnefndar var endurkjörinn formaður SHÍ, Samtaka Heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi.  Formennska í samtökunum hefur því verið um þriggja ára skeið á Austurlandinu.

Starfslið
Á árinu 2003 fékkst heimild til að fjölga stöðugildum um eitt á meðan stórframkvæmdir stæðu yfir á Austurlandi.  Sú heimild var að fullu nýtt á árunum 2004-2007.  Árið 2008 var heimildin ekki að fullu nýtt, en ráðið í 50% stöðugildi auk sumarhjálpar.  Nú stefnir í lok stórframkvæmda og því er gert ráð fyrir að fjöldi stöðugilda verði 3,35 á árinu 2009 eins og var árið 2003.  
Freydís Dana Sigurðardóttir, sem var í 50% stöðu og ráðin tímabundið til ársloka 2008 fór í barneignaleyfi í lok september en Júlía Siglaugsdóttir bætti tímabundið við sig 20% stöðugildi og verður í 80% stöðu til áramóta.  
Núverandi starfsmenn og stöðugildi eru því:

  • Helga Hreinsdóttir, frkvstj.    100%
  • Árni Jóhann Óðinsson, staðgengill frvstj.    100%
  • Júlía Siglaugsdóttir    80%
  • Hákon I. Hansson    35%
  • Borgþór Freysteinsson    40%

Því miður hefur Árni Jóhann Óðinsson sagt starfi sínu lausu frá og með 1.1.2009.  Árni hefur starfað hjá HAUST frá ársbyrjun 1998 verið staðgengill framkvæmastjóra og eini starfsmaður HAUST sem hefur verið í fullu starfi, annar en frkvstj.  Mikil eftirsjá er að Árna, enda er hann með eindæmum vandvirkur starfsmaður og ljóst að erfitt verður að fylla hans skarð.  Árna eru hér með þökkuð frábær störf í þágu heilbrigðiseftirlits og mengunarvarna á Austurlandi og óskað alls góðs á nýjum vettvangi.

Eftirlits- og fjárhagsáætlanir
Eftirlitsáætlun ársins 2007 stóðst í öllum aðalatriðum og er í því sambandi vísað til ársskýrslu 2007, sem hefur verið send sveitarfélögunum og var lögð fram á aðalfundi SSA 2008.  
Varðandi fjárhagsáætlun 2007 vísast til ársreiknings og umfjöllunar um hann, en því miður varð hallarekstur á árinu, þrátt fyrir tekjur umfram áætlun.

Efst á baugi í starfseminni og áherslur framundan
Stóriðjuframkvæmdir
Eftirlitsverkefni HAUST vegna byggingar álvers á Reyðarfirði sneru aðallega að bráðabirgðastarfsemi, svo sem vinnubúðum, verkstæðum o.þ.h. og er þeim nú að fullu lokið.  HAUST hefur ekki eftirlit með starfsemi álversins sjálfs, en um 10 starfsstöðvar tengdar álverinu eru háðar eftirliti heilbrigðiseftirlits, þ.e. mötuneyti, varaaflsstöðvar o.þ.h.
Vegna virkjanaframkvæmda á hálendinu norðan Jökuls fækkaði eftirlitsskyldum starfsstöðvum mikið á árunum 2007 og 2008.  Á árinu 2009 verða eftirlitsskyldar starfsstöðvar líklega aðeins við Hálslón og á Hraunaveitusvæði.  
Flestar urðu starfsstöðvar með tímabundin leyfi vegna stóriðjuframkvæmda á árinu 2006, en þá var skráður fjöldi 92, í desember 2007 var fjöldinn 53, í júlí sl. var fjöldinn kominn niður í 39 og enn hefur fækkað.  Hins vegar hefur mikil vinna fallið á HAUST vegna frágangs á virkjanasvæðinu á árinu 2008 og vinnuframlag hefur verið langt umfram hlutfallslegan fjölda skráðra starfsstöðva.

Matvælaeftirlit
Matvælaeftirlit á vegum ríkisins og forsjá matvælaeftirlits í landinu var um sl. áramót fært í eitt ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar og eina Matvælastofnun (MAST).  Samræmingarhlutverk sem Umhverfistofnun (UST) hefur haft með öllu heilbrigðiseftirliti í landinu fór því að hluta til Matvælastofnunar, þ.e. matvælahlutinn.  Þetta hefur þau áhrif á heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga að verksvið þeirra falla nú undir tvö ráðuneyti og tvær ríkisstofnanir.  
Fullyrt hefur verið að tilurð MAST og flutningur yfirumsjónar matvæla til eins ráðuneytis eigi ekki hafa áhrif á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, né heldur hafa aukinn kostnað í för með sér.  Nú eru hins vegar blikur á lofti, því með samþykkt bandormsins virðist eftirlitsstofnun ESA og aðilar hjá MAST líta svo á að starfsleyfisvinnsla og eftirlit með mjólkursamlögum skuli flutt frá HES til MAST, sama gildi um allar kjötvinnslur og fiskvinnslur.  Hingað til hefur verkaskipting verið sú að þar sem kjötvinnslur eru í sama húsi og sláturhús, fara dýralæknar með eftirlit, en kjötvinnslur í sér byggingum eru með starfsleyfi heilbrigðisnefnda.  Fiskistofa hefur hingað til í gegnum skoðunarstofur viðhaft eftirlit í fiskvinnslum sem flytja út matvæli, en HES hefur verið með minni fiskvinnslur sem framleiða eingöngu fyrir innanlandsmarkað auk þess að viðhafa mengunarvarnaeftirlit með öllum fiskvinnslum.  Á Austurlandi gæti þetta þýtt allnokkra fækkun verkefna fyrir HAUST.
Ef og þegar bandormurinn verður samþykktur verður frjálst flæði matvæla um Evrópu.  Matvæli sem framleidd eru í þriðju ríkjum verða þá flutt inn í Evrópu í gegnum landamærastöðvar og eiga síðan óheftan aðgang inn á okkar markaði.  Á samráðsfundum MAST og HES hefur komið fram að nauðsynlegt verði að auka mjög sýnatökur í smásölu og hjá innflytjendum, sérstaklega á kjötvörum.  Svo virðist sem ríkisstofnanir ætli sveitarfélögum að velta kostnaði af þessari sýnatöku og vinnu við hana yfir á fyrirtæki og er það mikið áhyggjuefni.

Annað
Horft fram á árið 2009
Í áætlanagerð fyrir árið 2009 var lengi vel tilhlökkun hjá starfsmönnum HAUST hvað það varðar að koma starfinu aftur í “eðlilegt horf” með lokum stórframkvæmda.  Nokkuð hefur skyggt ánægjuna að ekki hefur samist um yfirtöku verkefna frá UST, eins og margoft hefur verið rætt um og því var ekki hægt að bjóða áframhaldandi hlutastarf þeim starfsmanni sem ráðinn var vegna viðbótarverkefna í tengslum við stórframkvæmdir.  Samdráttur í stöðugildum liggur því þegar fyrir.  

                        5. nóvember 2008


Valdimar O. Hermannsson                     Helga Hreinsdóttir
formaður heilbrigðisnefndar                  frkvstj. HAUST


 

Heilbrigðisnefnd skipa nú eftirfarandi:

 Formaður:    Valdimar O. Hermannsson, Fjarðabyggð
 Varaformaður:    Björn Emil Traustason, Hornafjörður
Andrés Skúlason, Djúpivogur
Árni Kristinsson, Fljótsdalshérað
Borghildur Sverrisdóttir, Vopnafjörður
 Fulltrúi náttúruverndarn:  Kristín Ágústsdóttir, Fjarðabyggð
 Fulltrúi atvinnurekenda:    Benedikt Jóhannsson, Fjarðabyggð
   
Varamenn eru: Guðmundur R. Gíslason, Fjarðabyggð
Guðmundur Ólason, Fljótsdalshérað
Sigurlaug Gissurardóttir, Hornafjörður
Guðrún Ingimundardóttir, Hornafjörður
Elfa Rúnarsdóttir, Seyðisfjörður
F.h. náttúruverndarn:  Eiður Ragnarsson,  Fjarðabyggð
F.h. atvinnurekenda:  Auður Ingólfsdóttir, Fljótsdalshérað

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search