Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2009

Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands til aðalfundar HAUST bs. 11. nóvember 2009 flutt af Valdimar Hermannssyni formanni heilbrigðisnefndar.

Frá fundi Heilbrigðisnefndar AusturlandsHeilbrigðisnefnd
Ein breyting var gerð á skipan í heilbrigðisnefnd síðsumars 2008, þ.e. Árni Kristinsson var skipaður aðalmaður í stað Sigurðar Ragnarssonar sem annar fulltrúi norðursvæðis.  Ekki hafa orðið aðrar breytingar á nefndinni á þessu kjörtímabili.

Nefndarfundir
Frá aðalfundi 2008 hafa verið haldnir átta fundir, sjö símleiðis en nefndin hittist á einum fundi í Neskaupstað í maí.  Hefð hefur skapast fyrir því að skoða fyrirtæki eða stofnanir í tengslum við snertifund nefndarinnar.  Í þetta sinn var Búlandið skoðað, en þar eru til húsa rannsóknastofa Matís, Náttúrustofa Austurlands, Fiskistofa og Verkmenntaskóli Austurlands, einnig var skoðaður veitingastaðurinn Frú LúLú og safnahúsið í Neskaupstað.  Nefndin fékk afar góðar móttökur og þakkar hér með fyrir sig.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða SHÍ
Formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands var á aðalfundi endurkjörinn formaður SHÍ, Samtaka Heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi.  Vinna í þeim samtökum hefur vaxið jafnt og þétt.  Áhersla er lögð á að hafa góð tengsl við ráðuneyti sem hafa yfirumsjón með málefnum heilbrigðiseftirlits.  Auk þess sem ráðuneytin eru nú tvö, þ.e. Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og Umhverfisráðuneyti í stað einungis hins síðarnefnda áður hafa ráðherraskipti verið tíð og því ærin vinna að funda með starfsmönnum ráðuneytanna.  Samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga hefur styrkst mjög undanfarið, ekki síst vegna vinnu tengdum málefnum úrgangs og svo vegna endurtekinnar umfjöllunar um matvælafrumvarp.

Starfslið
Á árinu 2003 fékkst heimild til að fjölga stöðugildum um eitt á meðan stórframkvæmdir stæðu yfir á Austurlandi.  Sú heimild var að fullu nýtt á árunum 2004-2007.  Árið 2008 var fækkað um ½ stöðugildi og aftur árið 2009, þannig að mönnun er nú á ný orðin eins og var á árinu 2003.  Fimm starfsmenn skipta nú aftur með sér 3,35 stöðugildum.

Í stöðu Árna Jóhanns Óðinssonar, sem lét af störfum í des. 2008 var ráðinn Leifur Þorkelsson, sem áður starfaði hjá HAUST á árunum 2004-2006.  Annars er sama starfslið og verið hefur en nokkur tilfærsla hefur orðið á verkefnum milli starfsmanna.

Eftirlits- og fjárhagsáætlanir
Eftirlitsáætlun ársins 2008 stóðst í öllum aðalatriðum, en fjárhagsáætlun fór illa úr skorðum eins og hjá svo mörgum öðrum á þessu ári.  Verðhækkanir fóru úr böndum á seinni hluta ársins og gekk svo langt að erfitt var að greiða laun og reikninga.  Til að ná endum saman var m.a. samið við starfsmenn sem höfðu samninga um fyrirframgreiðslu launa um að fara á eftirágreiðslur.

Varðandi áhersluatriði í eftirlitsverkefnum og fjárhag ársins 2008 vísast til ársskýrslu 2008, sem hefur verið send sveitarfélögunum og var lögð fram á aðalfundi SSA 2009 sem og til ársreiknings HAUST 2008, sem verður fjallað um seinna á fundinum.

Efst á baugi í starfseminni og áherslur framundan

Breytingar á fyrirtækjalista

Allmiklar breytingar hafa orðið og verða enn á fyrirtækjalistum HAUST, þ.e. listum yfir eftirlitsskyld fyrirtæki.  Nokkur stór fyrirtæki urðu gjaldþrota og hurfu af listanum, en í ljós hefur komið að menn eru duglegir að bjarga sér og mörg lítil fyrirtæki hafa sprottið upp í stað þeirra stærri.  Ennfremur er mikil gerjun hvað varðar smá matvælafyrirtæki.  Jákvætt er að aðilar sem hyggja á stofnun matvælafyrirtækja hafa verið duglegir að setja sig í samband við HAUST og afla upplýsinga og leiðbeininga um kröfur sem þarf að uppfylla, en því miður er einnig nokkuð um það að fyrirtæki hefji starfsemi án þess að HAUST hafi nokkuð komið að.  Á næstu mánuðum mun þurfa að fara vel yfir fyrirtækjalistann og bera saman við auglýsingar og skilti í iðnaðarhverfum til að ná utan um þessa nýju starfsemi.

Eftirlit vegna mengunarvarna
Framkvæmdum á hálendinu er nú að mestu lokið, en þó teygist úr verkum einkum á Hraunaveitusvæðinu og hefur verið mun meiri vinna þar en búist var við á árinu 2009.  A.m.k. 10 langir vinnudagar hafa farið í eftirlitsferðir á hálendið það sem af er árs 2009 auk vinnu við skýrslugerð.  Einnig liggur fyrir að á árinu 2010 mun þurfa að sinna verkefnum við niðurrif og frágang í allmiklum mæli.

Þrátt fyrir að sveitarfélög fái ekki lengur styrki úr fráveitusjóði Umhverfisráðuneytis eru nokkur sveitarfélög að ýta þessum málaflokki í réttan farveg og fellur vinna við sýnatökur og umsagnir til HAUST vegna þessa.  Málefni úrgangs hafa verið í brennidepli undanfarið og þrátt fyrir að HAUST hafi ekki haft beina aðkomu að þeim málaflokki er reynt að fylgjast vel með.  Með meiri flokkun og endurvinnslu sem og auknu samstarfi sveitarfélaga ætti að vera hægt að ná talsverðum sparnaði í þessum spennandi málaflokki.   Til HAUST hafa borist erindi þar sem óskað er eftir nýtingu lífræns úrgangs til áburðar og uppgræðslu og hefur heilbrigðisnefnd tekið slíkum erindum vel og gefið út nokkur tímabundin leyfi til reynslu.

Matvælaeftirlit
Í ársbyrjun 2008 var forræði matvælaeftirlits í landi fært til Matvælastofnunar MAST.  Þótt ekki yrði af því að framkvæmd matvælaeftirlits sem sveitarfélögin fara með yrði sett undir hina nýju ríkisstofnun hafa orðið allmiklar breytingar gagnvart HES, t.d. samskipti við tvær stofnanir og tvö ráðuneyti.  Heilbrigðisfulltrúar um land allt finna fyrir því að MAST þarf sem ný stofnun að finna takt við undir- og hliðarstofnanir auk þess að koma sínum innri málum í fastari skorður.

Nú liggur enn fyrir alþingi matvælafrumvarp, þar sem lagt er til að eftirlitsverkefni sem heilbrigðisnefndir hafa haft með höndum verði færð til MAST.  Um er að ræða eftirlit með öllum mjólkurstöðvum, kjötvinnslum og kjötpökkunarstöðvum.  Hingað til hefur MAST aðeins farið með eftirlit í kjötvinnslum sem eru í beinum tengslum við sláturhús og mjólkurstöðvum sem hafa útflutningsleyfi.

Lagabreytingin hefði í för með sér að starfsleyfisvinnsla og eftirlit með litlum kjötvinnslustöðum, reykhúsum, ostaðgerðum o.þ.h. þyngist, því eftirlit með neysluvatnsveitum slíkra fyrirtækja sem og með mengunarvörnum (fráveita, úrgangur, umhverfi) verður eftir hjá heilbrigðisnefndum.  Í stað þess að heilbrigðiseftirlit fari með heildstætt eftirlit með allri starfseminni, er nú gert ráð fyrir að eftirlit með vinnslunni sjálfri verði fært til MAST, en heilbrigðiseftirlit hafi eftir sem áður eftirlitsskyldur.  Þannig verði tveir eftirlitsaðilar í stað eins að sinna litlum fyrirtækjum með auknum kostnaði og fyrirhöfn fyrir litla aðila.  Þetta er að mati HAUST á skjön við stefnu um einfaldar Ísland, einföldun í eftirliti og þá stefnu að hvetja til atvinnusköpunar í dreifbýlinu.

Á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og allra heilbrigðiseftirlitssvæða er andstaða gegn þessum áformum í frumvarpinu og spennandi að sjá hvað út úr þessu kemur að lokum.

Hollustuháttaeftirlit
Nýlega hefur fallið úrskurður um bótarétt einstaklins sem slasaðist í sundlaug, þrátt fyrir að merkingar væru til staðar og væru fullnægjandi að mati viðkomandi heilbrigðiseftirlits.  Þetta mál vekur upp ýmsar spurningar um túlkun reglna og ábyrgð löggjafans annars vegar og rekstaraðila og eftirlits hins vegar.  Líklegt er að máli þessu verði áfrýjað, en ljóst að þetta mun koma inn á borð rekstaraðila allra sundstaða.

Gæludýramál hafa verið mjög í brennidepil á undanförnum mánuðum.  Gæludýrum hefur fjölgað mikið og erfitt virðist vera að fá eigendur til að skrá dýr sín.  Of mörg klögumál og jafnvel alvarleg brot hafa komið til HAUST, en þessi mál eru afar erfið og bundin miklar tilfinningar.  Það er mat heilbrigðiseftirlits að réttur gæludýraeigenda og dýranna sjálfra sé á stundum orðinn meiri en nágranna og þolenda.  Drög að samþykkt um gæludýr var send sveitarfélögunum snemma árs 2009 til að reyna að ná einföldun og styrkari tökum á málaflokknum.  Fá sveitarfélög hafa gert samþykktina að sínum og væri óskandi að fleiri sveitarfélög færu að þeirra fordæmi.

Annað

Samningar um eftirlit f.h. UST
Þrátt fyrir áralanga baráttu og dyggan stuðning sveitarstjórnarmanna og þingmanna hefur ekki tekist að ná samningum um að HAUST fari með eftirlit f.h. UST umfram það sem verið hefur, þ.e. eftirlit með sorpförgun og fiskimjölsverksmiðjum.  Í stað þess að semja um fleiri eftirlitsflokka sagði UST gildandi samningum upp með það að markmiði að samræma þá og skýra.  Áform eru um að nýir samningar taki gildi um áramót, en vinnu við endurskoðun þeirra miðar mjög hægt.

7. nóvember 2009

Valdimar O. Hermannsson, formaður heilbrigðisnefndar

Helga Hreinsdóttir, frkvstj. HAUST


Heilbrigðisnefnd skipa nú eftirfarandi:
Valdimar O. Hermannsson, Fjarðabyggð, formaður
Björn Emil Traustason, Hornafjörður, varaformaður
Andrés Skúlason, Djúpivogur
Árni Kristinsson, Fljótsdalshérað
Borghildur Sverrisdóttir, Vopnafjörður
Kristín Ágústsdóttir, Fjarðabyggð, fulltrúi náttúruverndarn.
Benedikt Jóhannsson, Fjarðabyggð, fulltrúi atvinnurekenda:

Varamenn eru:                    
Guðmundur R. Gíslason, Fjarðabyggð
Guðmundur Ólason, Fljótsdalshérað
Sigurlaug Gissurardóttir, Hornafjörður
Guðrún Ingimundardóttir, Hornafjörður
Elfa Rúnarsdóttir, Seyðisfjörður
Eiður Ragnarsson,  Fjarðabyggð, f.h. náttúruverndarn
Auður Ingólfsdóttir, Fljótsdalshérað, f.h. atvinnurekenda

 

 

 

 


 

 

 

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search