Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2010

Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands til aðalfundar HAUST bs. 6. október 20109 flutt af Valdimar Hermannssyni formanni heilbrigðisnefndar

Heilbrigðisnefnd
Frá síðasta aðalfundi hefur sú breyting orðið á skipan í heilbrigðisnefnd að Björn Emil Traustason lét af störfum fyrir nefndina. Hann flutti milli sveitarfélaga á Austurlandi og gat því ekki skv. stofnsamningi lengur verið fulltrúi Suðursvæðis. Sigurlaug Gissurardóttir, hans varamaður tók við sæti hans í nefndinni.

Nefndarfundir
Frá aðalfundi 2009 hafa verið haldnir sex fundir, þar af fjórir símleiðis. Nefndin hittist í Breiðdal í apríl og í september á Egilsstöðum. Í samræmi við hefð sem skapast hefur voru ýmis fyrirtæki á stöðunum skoðuð; Café Margrét, Veiðihúsið Eyjar og Breiðdalssetur á fyrri fundinum en á þeim seinni var Fjóshornið á Egilsstöðum skoðað og farið inn í Kárahnjúkavirkjun.

Á öllum stöðunum voru móttökur rekstaraðila frábærar og það er gagnlegt fyrir nefndarmenn að kynnast starfsvettvangi heilbrigðisfulltrúanna.

Starfslið
Starfslið er óbreytt frá í fyrra, fimm starfsmenn í 3,35 stöðugildum. Sumarið 2010 var ekki ráðin sumarafleysing.

Eftirlits- og fjárhagsáætlanir
Eftirlitsáætlun ársins 2009 gekk upp og fjárhagsáætlun einnig. Í kjölfar fjárhagslegra skakkafalla á árinu 2008 hefur tekist að snúa dæminu við og það er ánægjulegt að geta lagt fram jákvæða ársreikninga fyrir árið 2009. Fyrir árið 2010 eru horfur á að áætlanir standist í stórum dráttum. Í sparnaðarskyni voru allir húsaleigusamningar teknir upp, borðsímum fækkað, akstur samnýttur til hins ýtrasta og hverri krónu velt. Þátttaka í nefndarstörfum og funda- eða fræðsluferðum hefur verið skorin við nögl en símfundum fjölgað í staðinn. Starfsmenn hafa sýnt málinu mikinn skilning og hafa að fullu tekið þátt í að halda rekstri innan marka.

Ekki verður fjölyrt um einstaka málaflokka hér, en vísað til ársskýrslu HAUST 2009. Spurningum þar um má gjarnan velta upp hér á eftir með umfjöllun um skýrslu stjórnar.

Samstarfsaðilar

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða SHÍ

Heilbrigðiseftirlitssvæðin tíu hafa með sér samstarf Samtök Heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi (SHÍ) og var formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands endurkjörinn formaður á aðalfundu 2009.

Innan vébanda SHÍ er mikil og góð samvinna heilbrigðiseftirlitssvæðanna (HES) og samtökin geta komið fram sem tengiliður við þau öll, sem eykur á samræmingu milli svæða

Samstarf við Umhverfisstofnun UST
Á vegum UST hafa á árinu verið teknir upp reglulegir símfundir forstjóra UST og framkvæmdstjóra HES. Fundir þessir eru haldnir mánaðarlega yfir vetrartímann og hafa reynst gagnlegir. UST og HES skipa ennfremur í samstarfshópa um málefni umhverfisgæða, hollustuhátta og efnvöru. Í þessum hópum er unnið að sameiginlegum málefnum sem brenna á aðilum og einnig að samræmingu eftirlitis.

Ásteytingarsteinn milli HAUST og UST er enn sem áður framsal eftirlitsverkefna og nú einnig þvingunarúrræða, en þau mál voru rædd á aðalfundi SSA og ályktað um þau þar.

Samstarf við Matvælastofnun MAST
MAST og HES hafa með sér samstarf um matvælaeftirlit í svokölluðum matvælahópi sem hefur svipuð markmið og hópar UST og HES. MAST er tiltölulega ung stofnun og mikill tími hefur farið í að móta stofnunina auk þess sem breytingar á matvælalögum höfðu í för með sér mikla vinnu sem hefur valdið togstreytu um eftirlitsverkefni milli MAST og HES og hugsanlega komið niður á samræmingarstarfi MAST gagnvart HES.

Samstarf við aðildarsveitarfélög HAUST og SSA
hefur verið ljúft á þessu ári sem og á kjörtímabilinu öllu. Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga í vor sendi HAUST kynningarbréf til nýrra sveitarstjórnarmanna, enda hafði aðeins borið á því að ungt fólk í framboði vissi ekki að heilbrigðiseftirlit er eitt af skylduverkefnum sveitarfélaganna. Þegar hafa verið haldnir fundir með umhverfisnefndum nokkurra sveitarfélaga, en því verður haldið áfram, enda mikilvægt að hafa gott samstarf við skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndir sveitarfélaganna. Vaxandi samstarf hefur einnig verið við íþrótta- og fræslunefndir, m.a. vegna aukinna krafna um leiksvæði og öryggi í íþróttamannvirkjum.

Það er mat HAUST að leggja þurfi áherslur á að styrkja enn frekar tengsl við sveitarstjórnir og starfslið sveitarfélaga.

Lok stórframkvæmda
Undir lok september voru siðustu starfsmannabúðirnar á virkjanasvæðinu norðan Jökuls teknar niður. Þar með er lokið stórum kafla í atvinnusögu Austurlands, sem HAUST hefur verið þátttakandi í frá upphafi. Starfsemi HAUST í tengslum við virkjanasvæðið og uppbyggingu álvers í Reyðarfirði hefur um margt verið afar fjölbreytileg og erfið, en einnig mjög lærdómsrík.

Þótt eftirlitsverkefni þar hafi sl. tvö ár verið mun minni en á aðalframkvæmdatímanum var samt um að ræða allmarga daga í eftirlit hvort sumar.

Nýungar og áherslubreytingar framundan.

Matvælaeftirlit
Með nýju matvælalögum sem tóku gildi á sl. ári er áherslubreyting í þá veruna að mjög er hnykkt á ábyrgð rekstraraðila í matvælafyrirtækjum. Þeir eru alfarið ábyrgir fyrir öryggi þeirrar vöru sem þeir framleiða eða dreifa og einnig því að í fyrirtækinu sé farið að lögum og reglugerðum. Þetta á einnig við um ábyrgð á að innra eftirlit í matvælafyrirtækinu sé virkt og sýnilegt.

Mengunareftirlit
Vonir standa til að brátt ljúki endurskoðun reglugerðar um varnir gegn olíumengun vegna starfsemi í landi og að þá verði komið tæki til að vinna betur að slíkum málum. Einnig er brýnt að fara að vinna starfsleyfi fyrir malarnámur, tippsvæði o.þ.h. sem aðeins verður gert í náinni samvinnu við skipulags- og umhverfisnefndir sveitarfélaganna.

Hollustuháttaeftirlit
Næstu áramót renna út allir frestir til að fjarlægja leiktæki sem ekki uppfylla staðla af opnum svæðum og leikvöllum. Í framhaldi af því munu starfsmenn HAUST ganga eftir að sveitarfélögin sæki um starfsleyfi fyrir þessari starfsemi.

Formaður og framkvæmdastjóri þakka fráfarandi heilbrigðisnefnd, sérstaklega þeim sem hætta störfum í nefndinni fyrir góða samvinnu.

6. október 2010

Valdimar O. Hermannsson, formaður heilbrigðisnefndar

Helga Hreinsdóttir, frkvstj. HAUST


Heilbrigðisnefnd skipa nú eftirfarandi:
Formaður: Valdimar O. Hermannsson, Fjarðabyggð
Varaformaður: Árni Kristinsson, Fljótsdalshérað
Andrés Skúlason, Djúpivogur
Sigurlaug Gissurardóttir, Hornafjörður
Ólafur Hr. Sigurðsson, Seyðisfjörður

Fulltrúi náttúruverndarn.: Kristín Ágústsdóttir, Fjarðabyggð
Fulltrúi atvinnurekenda: Benedikt Jóhannsson, Fjarðabyggð

Varamenn eru:
Elvar Jónsson, Fjarðabyggð
Aðalsteinn Ásmundsson, Fljótsdalshérað
Haukur Ingi Einarsson, Hornafjörður
Birgir Árnason, Hornafjörður
Borghildur Sverrisdóttir, Vopnafjörður
F.h. náttúruverndarn: Eiður Ragnarsson, Fjarðabyggð
F.h. atvinnurekenda: Auður Ingólfsdóttir, Fljótsdalshérað

pdf Skýrsla stjórnar - pdf

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search