Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2011

Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands til aðalfundar HAUST bs. 28. október 2011 flutt af Valdimar Hermannssyni formanni heilbrigðisnefndar

Heilbrigðisnefnd
Kosið var í heilbrigðisnefnd á aðalfundi SSA 2010 í kjölfar sveitarstjórnarkosninga það árið. Ekki urðu miklar sviptingar í nefndinni, því aðeins einn aðalmaður kom inn nýr og þó ekki, því Ólafur Hr. Sigurðsson, sem kosinn var aðalmaður fyrir norðursvæðið hefur áður setið í nefndinni og verið formaður hennar. Meiri endurnýjun varð í hópi varamanna. Listi með nöfnum allra aðal- og varamanna var sendur út með fundarboði og liggur einnig frammi á fundinum. Kristín Ágústsdóttir fulltrúi náttúruverndarnefnda flutti hins vegar af landi brott í haust og hvarf því úr nefndinni. Hennar varamaður Eiður Ragnarsson hefur tekið sæti í nefndinni og Fjarðabyggð hefur tilnefnd Erlín Emmu Jóhannsdóttur sem varamann í hans stað. Kristínu er auðvitað óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi og þökkuð margra ára störf fyrir HAUST.

Við leyfum okkur að líta svo á að vilji manna til að sitja í heilbrigðisnefnd í fleiri en eitt kjörtímabil sé merki um að nefndarstörfin séu áhugaverð. Málflokkurinn er umfangsmikill og ekki auðvelt að setja sig inn í lagarammann sem gildir um störf nefndarinnar. Jafnframt er heilbrigðisnefnd valdamikil nefnd, sem hefur mjög sterka stjórnsýslulega stöðu og sjálfstæði frá sveitarfélögunum. Þess vegna er gott að hafa í nefndinni einstaklinga sem hafa sterk tengsl inn í sveitarstjórnir og jafnframt áhuga á umhverfis- og hollustuháttamálum.

Nefndarfundir
Frá aðalfundi 2010 hafa verið haldnir fimm fundir í heilbrigðisnefnd, þar af þrír símleiðis. Í júní hittist nefndin á Seyðisfirði og þá voru gestir á fundinum forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir og sviðsstjóri umhverfisgæða, Gunnlaug Einarsdóttir. Í lok sumarleyfis um miðjan september hittist nefndin aftur og þá á Stöðvarfirði.

Hefð er fyrir að halda flesta fundi símleiðis, enda sparar það fé og tíma, en jafnframt er afar mikilvægt að nefndin hittist tvisvar árlega til að nefndarmenn kynnist vel, það auðveldar samskipti símleiðis inn á milli. Á snertifundum er reynt að skoða starfsemi sem HAUST hefur afskipti af þannig að nefndarmenn átti sig líka á eðli starfsins, t.d. var Kaffi Stein á Stöðvarfirði skoðaður enda fundað þar. Ennfremur er mikilvægt að nefndin hittist þegar fjalla þarf um viðkvæm málefni svo sem gjaldskrá og fjárhagsáætlun.

Starfslið
Starfslið HAUST er alveg óbreytt og hefur verið það í 3 ár. Fimm starfsmenn eru í 3,35 stöðugildum.

Eftirlits- og fjárhagsáætlanir
Eftirlit- og fjárhagsáætlanir ársins 2010 gengu upp og eftir því sem best verður séð eru líkur á að takist að halda áætlun ársins 2011 réttu megin við núllið. Þetta hefur því aðeins verið hægt að nurlað er með aurinn og krónum velt. Ekki hefur verið ráðið í sumarafleysingar undanfarin ár. Enginn hér inni fer í launkofa með að kostnaður við almennan rekstur hefur hækkað og launahækkanir á miðju yfirstandandi ári sem og í byrjun næsta árs gera heilbrigðisnefnd ókleift annað en æskja hækkunar á gjaldskrá. Það sem enn eykur á vandann er að tekjur uppá ca. 1,3 milljónir sem HAUST hefur haft af eftirlitsverkefnum fyrir hönd Umhverfisstofnunar munu ekki verða fyrir hendi á árinu 2012, ef svo fer sem horfir. Umhverfisstofnun hefur sagt upp samningi um verkefnið og að óbreyttu rennur hann út í lok desember.

Ekki verður þó verkefnaskortur, því nokkrir málaflokkar hafa verið settir í bið, m.a. vegna tímaskorts en þau verkefni munu skila minni tekjum en verkefnin frá UST allavega til að byrja með.

Um starfsemi Heilbrigðiseftirlits Austurlands vísast að öðru leyti til ársskýrslu HAUST 2010 auk þess sem stjórn og starfsmenn svara gjarnan spurningum um starf nefndarinnar eða einstök málaflokka og verkefni.

Samstarfsaðilar

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða SHÍ

Heilbrigðiseftirlitssvæðin tíu hafa með sér félagsskap: Samtök Heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi (SHÍ) og hefur formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands verið formaður samtakanna í allmörg ár. Mikil og góð samvinna er milli heilbrigðiseftirlitssvæðanna og framkvæmdastjórar hafa með sér samráðsfundi þegar þurfa þykir og þá á vegum samtakanna.

Stjórn SHÍ hefur lagt áherslu á að kynna starf heilbrigðisnefnda gagnvart ráðuneytum, starfsgreinasamböndum o.fl. Þannig var Erna Hauksdóttir frkvstj. SAF gestur á haustfundi samtakanna auk þess sem góð samvinna hefur tekist við Samband íslenskra sveitarfélaga, ekki síst hvað varðar sorpförgunarmál og umsagnir um lög og reglugerðir til stjórnvalda.

Umhverfisráðuneyti fer með málaflokk heilbrigðiseftirlits, en Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti með fagmálefni matvæla. SHÍ myndi gjarnan vilja sjá meiri samskipti við ráðuneytin og hefur látið slíkt í ljós á fundum með ráðherrum og/eða starfsmenn ráðuneytanna.

Samstarf við Umhverfisstofnun UST
Samstarf við UST hefur á undanförnum mánuðum markast af því að eftirlitsaðilar í landinu reyna að draga lærdóm af hruninu og betrumbæta sitt starf. Ríkisendurskoðun vann ennfremur skýrslu um Funa-málið svokallaða á Ísafirði. Í kjölfarið hefur UST breytt mjög verklagi sínu hvað varðar eftirfylgni með málum og beinir því til HES að gera slíkt hið sama. Dagsektum er nú beitt til að fylgja eftir málum og stofnunin óskar eftir lagabreytingum til að geta beitt stjórnvaldssektum.

UST hefur ennfremur óskað eftir að lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem og lögum um meðferð úrgangs verði breytt, þannig að heimildir til framsals eftirlitsverkefna til HES verði felldar niður og að verkaskipting milli UST og HES verði fastsett í lögunum og breytt talsvert. HES hefur fundað með Umhverfisráðuneyti og lagst gegn lagabreytingum sem fækka verkefnum á landsbyggðinni. Ekki er lagst gegn því að verkaskipting milli stjórnsýslustiga verði endurskoðuð, en þá skuli það gert með það að markmiði að eftirlitið verði sem skilvirkast og með hagsmuni almennings og umhverfis að leiðarljósi.

Í kaflanum hér að ofan var greint frá því að UST hefur sagt upp samningum sem HAUST hefur haft frá árunum 1994 og 1998 um eftirlitsverkefni. Það hlýtur að vekja athygli að ríkisstofnun geti þráast við árum saman og unnið gegn yfirlýstri stefnu stjórnvalda um flutning verkefna frá höfuðborginni til landsbyggðar og frá ríki til sveitarfélaga.

Samstarf við Matvælastofnun MAST
Á árinu tókust samningar um að HAUST fari með eftirlit og starfsleyfisvinnslu fyrir lítil matvælafyrirtæki sem eru með vinnslu kjöts, mjólkur og fisks. Um er að ræða tæp 10 fyrirtæki, sem voru hjá HAUST fyrir breytingu á túlkun laganna, þannig þarna var um hálfgerðan varnarsigur að ræða. Starfsleyfisvinnsla og eftirlit með matvælahluta mjólkurstöðvarinnar á Egilsstöðum fluttist yfir til MAST og einnig er MAST með kjötvinnslu Snæfells, sem opnaði nýverði starfsemi á Egilsstöðum. HAUST fer aðeins með umhverfiseftirlit með þessum starfsstöðvum nú.

Í sumar varð mikil umræða um sölu á heimabakkelsi. Heilbrigðisfulltrúar vinna auðvitað eftir lögum og hafa nógu breitt bak til að taka við skömmum almennings, en HES þykir auðvitað ekki gaman að heyra þingmenn og fyrrverandi ráðherra sem setja lögin skammast yfir farið sé eftir þeim. Nú liggja fyrir þingi tvö frumvörp þar sem lagt er til að heimila sölu matvæla í góðgerðarskyni. Í öðru frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimila þetta með leyfum eða tilkynningum, þannig að HES geti skráð og veitt leiðbeiningar. Í hinu frumvarpinu er gengið lengra og slík leyfi alveg undanskilin öllu eftirliti. Þetta þykir okkur vera varasamt og nýlegt dæmi um sýkingar af völdum smyglaðra matvæla segja allt sem segja þarf. Í seinna frumvarpinu er ennfremur rætt um að losa um leyfismál fyrir sölu á matvælum frá framleiðendum. Þetta teljum við alveg ótímabært á meðan skilgreiningarvinna hefur ekki farið fram. Ekki er skýrt hvað er heimamarkaður, hvað er lítið magn og ýmislegt fleira. Það er áhyggjuefni ef þingmenn fara í atkvæðaöflun á kostnað matvælaöryggis þjóðarinnar.

Samstarf við aðildarsveitarfélög HAUST og SSA
HAUST hefur átt góðan bakhjarl þar sem SSA er alveg síðan byggðasamlag um rekstur HAUST var stofnað. Núverandi formaður SSA er einnig formaður HAUST þannig að samskipti hafa verið mikil og greið: Við treystum því að breyt rekstrarumhveri SSA með sameiningu stoðstofnana muni enn styrkja tengsl við HAUST.

Tvö mál hafa verið efst á baugi í samskiptum sveitarfélaganna og HAUST uppá síðkastið. Annars vegar öryggismál á sundstöðum og leikvöllum, þar sem miklar kröfur eru gerðar til HES og sveitarfélaga um starfsmannahald og fagþekkingu ekki síður en búnað. Hins vegar eru það fráveitumálin, en nú er mjög þrýst á HES um að krefja sveitarfélögin um að koma skólpmálum í löglegt horf. Í báðum málalfokkunum eru frestir skv. reglugerðum útrunnir og forstjóri UST hvatti heilbrigðisnefnd á fundinum í júní til að íhuga dagsektir til að þvinga fram úrbætur. HAUST ákvað að fara fram á stöðuskýrslur frá sveitarfélögum hvað varðar fráveitumálin og verður hér á eftir gerð grein fyrir þeim.

Lokaorð
Að lokum vilja undirrituð þakka, gott samstarf við sveitarfélögin á Austurlandi og meðal fulltrúa þeirra í heilbrigðisnefnd, en síðast en ekki síst er þakkað fyrir faglegt vinnuframlag starfsmanna HAUST.

28. október 2011

Valdimar O. Hermannsson, formaður heilbrigðisnefndar

Helga Hreinsdóttir, frkvstj. HAUST

pdf Skýrsla stjórnar 2011 - pdf

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search