Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2012

Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands til aðalfundar HAUST bs. 24. október 2012 flutt af Valdimar Hermannssyni formanni heilbrigðisnefndar.

Heilbrigðisnefnd

Ekki hafa orðið breytingar á skipan heilbrigðisnefndar frá síðasta aðalfundi.  Sveitarstjórnarkosningar verða væntanlega næst vorið 2014.  Skv. stofnsamningi um rekstur HAUST sem byggðasamlags á að skipa stjórn, sem einnig er heilbrigðisnefnd á næsta aðalfundi SSA eftir sveitarstjórnarkosningar.  Hugsanlega þarf að íhuga hvort þetta fyrirkomulag er hið eina rétta miðað við stöðu Hornfirðinga sem eiga ekki lengur aðild að SSA.  Einnig er mikilvægt að gæta þess að tengsl HAUST við SSA innan Austurbrúar verði jafnsterk og góð og þau hafa verið frá stofnun HAUST, enda hefur SSA verið ötull liðsmaður og stuðningsaðili HAUST frá upphafi.

Nefndarfundir

Frá aðalfundi 2011 hafa verið haldnir sex fundir í heilbrigðisnefnd, allir símleiðis nema einn.  Í maí hittist nefndin í Hallormsstað og skoðaði þá eftirlitsskyld fyrirtæki á staðnum, þ.e. nýja hótel Hallormsstað og fyrirtækið Holt og heiðar, sem framleiðir rabarbarasultu, birkisíróp o.fl.  Æskilegt er að nefndin hittist á fundum til að afgreiða fjárhagsáætlun, gjaldskrármál o.þ.h. en tímarammi var því miður þröngur fyrir þennan aðalfund, m.a. vegna sumarleyfa og því hefur nefndin aðeins hist einu sinni á þessu ári. 

Starfslið

Starfslið HAUST er óbreytt og hefur verið það í 3 ár.  Fimm starfsmenn hafa verið í 3,35 stöðugildum, en vegna aukinna verkefna fyrir Umhverfisstofnun verður hlutfallið aukið um 0,05 stöðugildi seint á þessu ári.  Meira um það hér á eftir.  

Eftirlits- og fjárhagsáætlanir

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 var gerð í ljósi mikils óöryggis um hvort samningar um að HAUST færi með eftirlitsverkefni f.h. UST á árinu og einnig var á aðalfundi ársins 2011 samþykkt hækkun á gjaldskrá HAUST, enda var rekstur orðinn mjög naumur.  Í gjaldskránni var samþykkt hækkun og tímagjaldið varð kr. 9.400.  Eftir að samningur náðist við UST og ljóst að verkefni og tekjur vegna eftirlits fyrir þá stofnun yrðu jafnvel meiri en áður, var fjárhagsáætlun öll endurskoðuðuð og ákveðið að ekki þurfti að fullnýta hækkað tímagjald og því hefur verið unnið með tímagjaldið 9.200 kr. á árinu 2012.  Gert er ráð fyrir sama tímagjaldi á næsta ári.

Samningar um eftirlit f.h. UST og MAST

Samningar við UST eru nú tveir.  Annars vegar var uppsögn samnings um að HAUST fari með eftirlit með sorpförgun og spilliefnamóttöku frestað til ársloka 2013 og verður eftirlit með þeirri starfsemi óbreytt.  Hins vegar var gerður nýr samningur um að HAUST fari með eftirlit með fiskimjölsverksmiðjum og fiskeldisfyrirtækjum.  HAUST hefur veitt starfsleyfi og farið með eftirlit með litlum fiskeldisfyrirtækjum en þar sem leyfi er fyrir fiskeldi umfram 200 tonna ársframleiðsla sér UST um starfsleyfisvinnslu.  Það eru þessi stóru fiskeldisfyrirtæki sem eru viðbót við áður gerða framsalssamninga milli HAUST og UST.  Fiskeldisfyrirtækin eru flest á suðurfjörðum og þess vegna er stöðugildi heilbrigðisfulltrúa sem sinnir því svæði hækkað lítillega. Þessi nýi samningur er mun ítarlegri en framsalssamningar hafa áður verið, t.d. þarf að vinna eftirlit skv. ákveðnu formi frá UST og ganga frá skýrslum á bréfhaus UST og með þeirra fulltingi.  Einnig er ákvæði um að HAUST innheimti kostnað vegna eftirlitsins skv. sinni gjaldskrá með reikningi til UST en UST sendir síðan reikning til viðkomandi fyrirtækis skv. sinni gjaldskrá sem er umtalsvert hærri.

Samningur um að HAUST fari með eftirlit með átta matvælafyrirtækjum f.h. MAST náðist í desember 2010.  Mikil þróun er að verða í litlum matvælaframleiðslum t.d. á vegum bænda.  Vegna þessa hafa fyrirspurnir og umsóknir um starfsleyfi borist til HAUST og/eða til MAST.  Þegar vafi leikur á hvort fyrirtæki falli undir framsalssamning þarf að fá úr því skorið há MAST en því miður hafa samskipti við MAST ekki gengið sem skyldi.  Langan tíma hefur tekið að fá svör og dæmi eru um að starfsmenn MAST hafi svarað á mismunandi máta.  Þetta hefur valdið starfsmönnum HAUST miklu angri, enda er markmið með okkar vinnu að liðka til fyrir atvinnusköpun.  Þegar síðan við bætist að MAST hyggst gera kröfu um að eftirlit sem HES fara með skv. framsalssamningum verið fært inn í tölvukerfi og unnið skv. eftirlitshandbók MAST varð ljóst að kostnaður við eftirlit og samskipti við MAST yrði meiri en ávinningur HAUST skv. gjaldskrá.  Því var ákveðið að segja umræddum framsalssamningi upp.  Reyndar sagði MAST öllum framsalssamningum við HES upp á sama tíma í því augnamiði að breyta framkvæmd þeirra.   Tekjutap vegna uppsagnarinnar nemur rétt um 200 þús kr.

Verkefnatilflutningur

Starfsmenn HAUST finna mikið fyrir auknum þunga verkefna vegna skýrslugerða og ytra eftirlits í tengslum við Evrópusamstarf.  Þetta á sérstaklega við matvælaeftirlitið.  Mikið hefur verið um námskeið og fræðslufundi vegna nýrra og ítarlegri eftirlitsreglna sem taka smám saman gildi skv. tilskipunum frá Evrópu.  Þetta á t.d. við um merkingar vegna erfðabreyttra matvæla, efna í hlutum sem geta komið í snertingu við matvæli o.fl.  Eftirlitsaðilar bæði á vegum ESA og EFTA koma nú 6-8 sinnum árlega í eftirlit með framkvæmd matvælaeftirlits í landinu.  Þessar eftirlitsheimsóknir hafa enn sem komið er aðallega beinst að MAST, en einnig og í vaxandi mæli að verkefnum HES.  Vegna þessa er ætlast til þess að fulltrúar HES sitji upphafs og lokafundi með eftirlitsnefndum auk þess sem okkur ber skylda til að taka á móti eftirlitsnefndum, sem geta verið í nokkra daga í senn á svæðinu.  Skýrsluskil eru ennfremur mjög tímafrek en þátttöku er krafist af hverju heilbrigðiseftirlitssvæðis, þar sem hvert þeirra er sjálfstætt stjórnvald.  Mikilvægt er að á vegum SHÍ náist samstaða um að HES skipti með sér verkum hvað varðar þessa skýrslugerð og ennfremur að starfsmönnum HES verði ætlaður tími í verkin.

Á vegum umhverfisráðuneytis er unnið að endurskoðun laga um hollustuhætti og mengunarvanir og einnig að lögum um efni og efnavörur.  Í báðum tilfellum getur komið til þess að forsjá málaflokka verð færð til UST, en HES hugsanlega boðið að sinna eftirlitsverkefnum með samningum þar um.  Með þessu dregur úr sjálfstæði eftirlits á vegum sveitarfélaga þótt verkefnum fækki ekki, þ.e. ef samningar nást. 

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða

SHÍ hafa nú starfað frá árinu 1999.  Markmið með stofnun samtakanna var að styrkja samstarf HES og ekki síður að styrkja samband heilbrigðiseftirlits við sveitarfélögin í landinu og mynda aðila sem gæti komið fram f.h. allra 10 svæðanna.  Mikill og góður árangur hefur náðst hvað varðar samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga.  Nú er einnig svo komið að ráðuneyti og ýmsir aðilar leita í vaxandi mæli til SHÍ hvað varðar umsagnir um lög og reglur.  Mikilvægt er að stjórn samtakanna deili verkefnum milli HES og að svæðin taki öll þátt í þeirri miklu vinnu sem til fellur.

Lokaorð

Að framansögðu má ljóst vera að sveitarstjórnir á Íslandi og samtök þeirra, þurfa hér eftir sem hingað til að standa vörð um heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og þau verkefni sem HES hefur sinnt til þessa.

24. október 2012

 

Valdimar O. Hermannsson                              Helga Hreinsdóttir

formaður heilbrigðisnefndar                            frkvstj. HAUST

 

Skammstafanir: Ust: Umhverfisstofnun, MAST: Matvælstofnun, HES: Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, SHÍ: Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi. 

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search