Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2013

Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands til aðalfundar HAUST bs. 9. október 2013 flutt af Valdimar O. Hermannssyni formanni heilbrigðisnefndar

Heilbrigðisnefnd

Heilbrigðisnefnd sú sem kjörin var í lok sveitarstjórnarkosninga 2010 var að stórum hluta sama nefndin og setið hafði kjörtímabilið þar á undan. Nefndarmenn þekkjast því vel og þekkja einnig vel til þess lagaramma sem vinna ber eftir. Sjaldan er ágreiningur um afgreiðslu mála enda ríkir traust í störfum nefndarinnar, bæði meðal nefndarmanna og nefndar og starfsmanna. Við teljum okkur líka hafa ákveðið traust sveitarstjórna sem við vinnum fyrir sem og annarra eftirlitsþega.

Sveitarstjórnarkosningar verða væntanlega vorið 2014 og í kjölfarið þarf að tilnefna nýja nefnd á aðalfundi SSA/Austurbrúar. Það er gert samtímis því sem tilnefnt er í aðrar samstarfsnefndir á vegum sveitarfélaganna. Í þessu sambandi þarf að gæta þess að Hornfirðingar eru ekki lengur aðilar að samtökum sveitarfélaga á Austurlandi, en skv. stofnsamningi og venju eiga þeir einn aðalmann og tvo varamenn í stjórn byggðasamlagsins sem einnig er heilbrigðisnefnd.

Nefndarfundir

Frá aðalfundi 2012 hafa verið haldnir sjö fundir í heilbrigðisnefndinni. Þar af hefur nefndin hist þrisvar sinnum, en fjórir fundir hafa verið símleiðis. Þegar nefndin hittist er reynt að nýta ferðina til að kynna nefndarmönnum fyrirtæki sem falla undir eftirlit nefndarinnar. Í maí var fiskimjölsverksmiðja Eskju skoðuð og í september sl. var fundað á nýjum gististað, Silfurbergi í Breiðdal.

Starfslið

Starfslið HAUST er alveg óbreytt, fimm fastráðnir starfsmenn í rúmlega þrem stöðugildum. Allir hafa starfsmennirnir langan starfsaldur hjá HAUST, sá stysti er 9 ár. Í sumar var í fyrsta skipti frá 2008 ráðinn sumarstarfsmaður í 3 mánuði.

Eftirlits- og fjárhagsáætlanir

Nokkur festa er í eftirliti og fjárhag HAUST. Mikillar íhaldsemi hefur gætt í meðferð fjármála, ekki síst frá árinu 2008 þegar halli varð á rekstrinum og allt rekstarumhverfi gerbreyttist. Bifreiðar embættisins eru tvær, Tyota Hilux frá 2005, sem nú er að fullu afskrifuð en í góðu ástandi og Scoda Octavia frá 2011. Þessar bifreiðar eru notaðar þar sem hægt er en annars leggja starfsmenn til eigin bifreiðar gegn kílómetragjaldi.

Vegna samræmingarvinnu milli heilbrigðiseftilritssvæða hefur ferðum á fundi fjölgað smám saman frá því að nánast engar slíkar ferðir voru samþykkar eftir hrun. Það hefur verið mat heilbrigðisnefndar og starfsmanna að þátttaka í slíkri vinnu sé okkur nauðsynleg, enda er mikilvægt að rödd dreifbýlis heyrist, sjónarmið þéttbýlli svæða eru oft á tíðum önnur en okkar og taka verður tillit til beggja við smíð starfsleyfisskilyrða og viðmiðunarreglna.

Eftirlitsskyldum starfsstöðvum hefur fjölgað jafnt og þétt. Árið 2002 voru tæplega 1000 starfsstöðvar á eftirlitsskrá en nú eru þær um 1350. Skipting milli svæða hefur haldist nokkuð jöfn. Tölunum ber þó að taka með fyrirvara, því þar sem fyrirtæki eru með margþætta starfsemi (matvæli, mengandi, hollustuhátta) er farið eftir fjölda ÍSAT númera. Þótt þessar tölur gefi ekki hárréttar hugmyndir um fjölda fyrirtækja sýna þær þó þyngra eftirlit. Vaxandi kröfur eru gerðar til skráninga, skýrslugerða og starfsleyfavinnslu, auk þess sem stöðugt er unnið að því að ná inn á skrár fyrirtækjum sem eru háðar starfsleyfum. Þetta á t.d. við opin leiksvæði, fráveitur, malartekju o.fl.

Um Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit

Eins og fram kemur hér að ofan er áberandi aukin þörf heilbrigðiseftilritssvæða fyrir samstarf og samræmingu milli svæða. Matvælastofnun (MAST) og Umhverfisstofnun (UST) hafa skv. lögum samræmingarhlutverk, en innan stofnanna virðist lítill vilji/geta til að sinna þeirri starfsemi. Vafalaust er þar um að kenna fjárskorti og önnum, en einnig er starfsaldur innan stofnanna mun lægri en hjá heilbrigðiseftirlitssvæðunum auk þess sem áhersla í rekstri stofnanna hefur verið sveigð meira í áttina til lögfræðisviðs og frá eftirliti. Þetta hefur þau áhrif að heilbrigðisfulltrúum þykir skorta jarðtengingu við vinnu á vetvangi.

Frá árslokum 2012 eru engir samningar um verkefnavinnu milli MAST og HAUST. Milli UST og HAUST er samningur um að HAUST fari með eftirlit með fiskeldi og fiskimjölsverksmiðjum, sá samningur gildir til ársloka 2016. Samningur um að HAUST fari með eftirlit með sorpförgun og spilliefnamóttökum rennur út nú í árslok en vonir standa til að nýr samningur verði gerður með gildistíma til tveggja ára, þ.e. til ársloka 2015. Auk þessa hefur UST nú í tvö ár óskað eftir að HAUST fari með reglubundið eftirlit með nokkrum sorpförgunarstöðum og einni fiskimjölsverksmiðju í Langanesbyggð og Norðurþingi. Þessi verkefni samtals hafa gefið HAUST sértekjur að upphæð 2.5 milljónir. UST hefur hins vegar hafnað ósk HAUST um verkefnasamning á grunni nýrra efnalaga, en með þeim eru nokkur eftirlitsverkefni flutt frá heilbrigðiseftirlitssvæðum til UST.

Afmæli

Byggðasamlag um rekstur heilbrigðiseftirlits Austurlands var stofnað 12.11.1998, þannig að byggðasamlagið á nú 15 ára afmæli. Samlagið var stofnað í kjölfar nýrra laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Í þeim lögum var kveðið á um að ekkert sveitarfélag skuli vera án heilbrigðiseftirlits og landinu skipt upp í eftirlitssvæði sem eru þau sömu og þáverandi kjördæmi. Ennfremur er í lögunum mælt fyrir um að á svæðunum starfi heilbrigðisnefnd sem kosin er eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar.

Þetta voru allmikil nýmæli. Fram að þessu höfðu sveitarfélög vissulega haft heilbrigðisnefndir, en það var upp og ofan hvort nefndirnar höfðu starfsmenn eða ekki og þá einnig hvaða verkefnum var sinnt. Hér á Austurlandinu höfðu Stefán Þórarinsson héraðslæknir og Björn Hafþór Guðmundsson, þáverandi frkvstj. SSA frumkvæði að stofnun Svæðisnefndar fyrir heilbrigðiseftirlit á Austurlandi, þar sem formenn heilbrigðisnefnda hittust árlega og samræmdu störf sín. Þessir aðilar höfðu einnig frumkvæði að sameiningu heilbrigðisnefnda, þannig varð að þeirra tilstuðlan til ein heilbrigðisnefnd á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystra, nefndirnar á Neskaupstað, Eskifirði og Reyðarfirði voru sameinaðar í eina og fleira mætti nefna. Þessir framsýnu menn höfðu ennfremur forgöngu að því að ráða heilbrigðisfulltrúa í fullt starf og fela honum framkvæmdastjórn f.h. Svæðisnefndarinnar. Það fyrirkomulag að hafa heilbrigðisfulltrúa í fullu starfi og titla hann framkvæmdastjóra var síðar lögfest í nýju hollustuháttalögunum 1998. Þarna eins og svo oft áður hafa Austfirðingar verið á undan öðrum landshlutum í samvinnu, sbr. samvinna sveitarfélaganna á mörgum sviðum og nú síðast stofnun Austurbrúar.

Að lokum

Heilbrigðisnefnd þakkar starfsmönnum HAUST góð og fagleg störf. Einnig þakkar heilbrigðisnefnd sveitarstjórnarmönnum og öðrum samstarfsaðilum fyrir gott samstarf.

9. október 2013

 

Valdimar O. Hermannsson                              Helga Hreinsdóttir

formaður heilbrigðisnefndar                            frkvstj. HAUST

 

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search