Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2014

Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands til aðalfundar HAUST bs. 1. október 2014 flutt af Valdimar O. Hermannssyni formanni heilbrigðisnefndar

Starf heilbrigðisnefndar frá seinasta aðalfundi

Engar breytingar hafa orðið á skipan heilbrigðisnefndar á starfsárinu. Frá því nefndin var skipuð í kjölfar sveitarstjórnakosninga árið 2010 hefur aðeins orðið sú breytinga að skipt var um fulltrúa náttúrverndarnefnda þar sem skipaður fulltrúi fór til námsdvalar erlendis.  Annars hefur nefndin starfað samhent allt kjörtímabilið og reyndar voru fjórir nefndarmanna einnig í fyrri heilbrigðisnefnd, þ.e. árin 2006-2010.  Hjá nefndinni er því mikil þekking og reynsla af störfum heilbrigðiseftirlits.

Frá aðalfundi 2013 hafa verið haldnir sex fundir í heilbrigðisnefndinni, en einnig var haldinn einn fundur framkvæmdanefndar (formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri). Fundað var símleiðis nema í maí, þegar nefndin hittist í glæsilegu veiðihúsi, Fossgerði, við Selá í Vopnafirði. Við það tækifæri var sundlaug Vopnfirðinga í Selárdal skoðuð undir leiðsögn bæjarstjóra og yfirmanns áhaldahúss. 

Starfslið

Starfslið HAUST hefur verið óbreytt um langt árabil, þ.e. fimm fastráðnir starfsmenn í um þrem og hálfu stöðugildi. Sumarstarfsmenn hafa veriðráðnir tímabundið.  

Í sumar voru tveir sumarstarfsmenn og vegna fyrirséðrar fjarveru fastra starfsmanna á árinu 2015 hefur heilbrigðisnefndin samþykkt að annar þeirra verði ráðinn áfram til ársloka 2015.  Mikil ánægja er meðal starfsmanna með þessa lausn, enda tekur langan tíma að komast inn í störf heilbrigðiseftirlits og afla staðþekkingar auk þess sem verkefni verða æ viðameiri.

Helstu verkefni á starfsárinu

Eins og alltaf eru verkefni heilbrigðiseftilrits fjölbreytileg.  Starfsmenn hafa víðtækt umboð til að klára mál ef þau eru í samræmi við lög og reglur, en öll erfiðari mál eru borin undir heilbrigðisnefnd. 

Á sl. kjörtímabili hefur heilbrigðisnefnd endurtekið fjallað um málefni gæludýra, sérstaklega vegna hunda sem bíta.  Það eru erfið mál og viðkvæm og leiða jafnvel til umræðu á alnetinu og í fjölmiðlum.  Ákvörðun nefndarinnar í einu slíku máli var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindanefndar í nóv. 2013 og féll úrskurður í mars 2014. Ákvörðun heilbrigðisnefndar um aflífun hunds var felld úr gildi á þeirri forsendu að ekki hafði komið fram krafa um aflífun af þar til bærum aðila, þ.e. hundaeftirlitsmanni sveitarfélags eða þeim sem varð fyrir biti.  Vegna þessa máls er nú unnið að endurskoðun gæludýrasamþykkta fyrir sveitarfélög á starfssvæðinu.

Önnur stjórnsýslukæra er í vinnslu hjá úrskurðarnefndinni, en hún lýtur að starfsleyfisútgáfu þar sem aðalskipulag og deiliskipulag sveitarfélags fara ekki saman.  Kæran var lögð fram í árslok 2013 og því miður hefur enn ekki fallið úrskurður. 

Alla jafnan gengur starf HAUST ljúflega og átakalaust, en þó eru aðilar sem ekki sinna tilmælum og kröfum um úrbætur.  Málin eru þá kynnt á fundum heilbrigðisnefndar sem getur beitt þvingunarúrræðum skv. ákvæðum hollustuháttalaga.  Fjölmiðlar fylgjast grannt með fundargerðum nefndarinnar sem eru birtar á heimasíðu HAUST.  Því miður virðist málsaðilum oft þykja verra að fá fjölmiðlaumfjöllun um mál sín en formlegar áminningar eða fresti til úrbóta frá heilbrigðisnefnd.  Vitað er að Umhverfisstofnun sækist eftir því að fá sektarheimildir til að knýja á um úrbætur hjá fyrirtækjum þar sem um brot að starfsleyfum er að ræða, en óvíst er að slíkar heimildir yrðu veittar heilbrigðisnefndum.

Rekstur HAUST

Fjárhagur HAUST hefur verið jákvæður frá því að tókst að snúa við hallarekstri hrunársins 2008. Greinileg batamerki eru í hinu fjárhagslega umhverfi, sem sést m.a. á hækkandi húsaleigu, fleiri boðum á fundi og námskeið o.fl. þ.h.
Fjöldi eftirlitsskyldra starfsstöðva á starfssvæði HAUST er um 1300, þar af eru tæplega 600 á norðursvæði, tæplega 400 á miðsvæði og um 350 á suðursvæðinu. Skipting verkefna milli starfsmanna fer eftir svæðum og eðli eftirlitsins og er í nokkuð föstum skorðum.  Reynt er að gæta að hagræði í eftirliti, samnýta ferðir eftir föngum og því mikilvægt að þrátt fyrir vissa sérhæfingu starfsmanna þá geti þeir gengið í störf hvers annars.

Umhverfisstofnun - Matvælastofnun

Engir samningar eru milli HAUST og Matvælastofnunar um skiptingu eftirlits.  HAUST hefur hins vegar tvo samninga um framkvæmd eftirlits f.h. Umhverfisstofnunar, þ.e. eftirlit með fiskimjölsverksmiðjum, fiskeldi og förgun úrgangs.  Með lagabreytingu færist allt eftirlit með fiskeldi frá Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga til Matvælastofnunar í ársbyrjun 2015, þannig að tekjur HAUST vegna þessa munu lækka.  
Stöðugt er unnið að því að gera eftirlit áhættumiðaðra.  Á vegum Matvælastofnunar hefur farið mikil vinna í að formgera slíkt áhættumat að sænskri fyrirmynd.  Í samstarfi Matvælastofnunar og heilbrigðiseftilritssvæðanna hefur samskonar vinna farið fram varðandi matvælaeftirlit á vegum heilbrigðiseftirlits. Í beinu framhaldi af þeirri vinnu mun HAUST ásamt tveim öðrum heilbrigðiseftirlitssvæðum taka í notkun gagnaskráningarkerfi Matvælastofnunar, ÍsLeyf.  Nokkur kostnaður hlýst af þessu og einnig þarf að gera ráð fyrir allmiklum tíma í millifærslu gagna og þjálfun við notkun grunnsins.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með innleiðingu vatnatilskipunar og leitaði árið 2012 til sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda o.fl. með skipan í vatnasvæðanefndir.  Mikil vinna hefur farið fram við söfnun gagna og hafa ýmsar stofnanir komið þar að.  M.a. hafa heilbrigðiseftirlitssvæðin safnað saman upplýsingum um öll starfsleyfisskyld vatnsból, niðurstöður sýna af strandsjó o.þ.h. að ósk vatnaráðs.  Árið 2013 var fjármagn Umhverfisstofnunar til verkefnisins skorið mjög niður og í kjölfarið hafa óskir um vinnuframlag af hálfu heilbrigðisnefnda aukist auk þess sem nú er gert ráð fyrir að sýnatökur og vöktun verði fjármögnuð með gjaldtöku af aðilum sem selja vatn, þ.e. sveitarfélögum og svo fyrirtækjum sem hugsanlega menga viðtaka.  Sveitarfélög og stofnanir þeirra eru hvött til að vera vakandi og fylgjast með þróun í málaflokknum.

Lokaorð

Þar sem núverandi formaður heilbrigðisnefndar, frá 2006, er að láta af þeim störfum á þessum vettvangi, þá koma upp í hugan sérstakar þakkir til framkvæmdastjóra og annara starfsmanna HAUST, fyrir einstaklega faglegt og gott samstarf í hvívetna á umliðnum árum, þó svo að mörg og margvísleg mál hafi komið til úrlaustnar á þessum mikilvæga vettvangi. Þá eru þakkir til allra nefndarmanna í heilbrigðisnefnd fyrir gott samstarf, og  m.a. fróðlegar vettfangsferðir um eftirlitssvæðið á umliðnum árum, sem gefur reglugerðar - nefndarstarfi sem þessu, aukið gildi, fróðleik og jafnvel skemmtun.

1. október 2014

Valdimar O. Hermannsson, formaður heilbrigðisnefndar
Helga Hreinsdóttir, frkvstj. HAUST                            

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search