Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2015

Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands til aðalfundar HAUST bs. 28. október 2015 flutt af Eiði Ragnarssyni, formanni heilbrigðisnefndar.

Efst á baugi í starfinu

Varðandi árið 2014 vísast til ársskýrslu sem hefur verið send sveitarfélögunum og þar er litlu við að bæta.

En nokkrum atriðum tel ég þó rétt að dreypa á.

Frá árinu 2012 hefur á vegum Umhverfis- og atvinnumálaráðuneytis verið starfandi hópur til að íhuga og fyrirkomulag eftirlits í landinu og breytta verkaskiptingu milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits, allt skv. lögum n.r. 7/1998.  Vinna hópsins hefur verið endurvakin nýlega eftir að hafa legið niðri og ástæða er til að hvetja sveitarfélögin til að fylgjast vel með þegar niðurstöður verða kynntar.  Hugmyndir eru margvíslegar, allt frá því að breyta skipan heilbrigðiseftirlits og yfir í að leggja eftirlit með hollustuháttum og mengandi starfsemi undir eina ríkisstofnun. Í þessu sambandi er ekki verið að fjalla um eftirlit með matvælum.

Mikilvægt er eins og áður segir að fylgjast vel með þessari vinnu og hugsanlegum breytingum, og nauðsynlegt að brýna sveitastjórnarfólk í því að standa vörð um þá vinnu og þekkingu sem er til staðar í héraði og að tryggja að störf sem þessu tengjast flytjist ekki af landsbyggðinni vegna þeirra breytinga sem gætu orðið

Í ársbyrjun 2015 tóku gildi lagabreytingar sem færðu allt eftirlit með fiskeldisfyrirtækjum til Matvælastofnunar.  Þar með dró úr eftirlitsverkefnum og tekjum skv. samningum við Umhverfisstofnun.  Eftir stendur að HAUST fer með eftirlit með fiskimjölsverksmiðjum skv. einum samningi og með sorpförgun og spilliefnamóttökum skv. öðrum samningi.  Í mars var óskað eftir framlengingu og sameiningu samninganna tveggja og var gengið frá einum samningi þar um í sl. viku og gildir hann til ársloka 2017.  Af hálfu Matvælastofnunar var óskað eftir að HAUST myndi sinna útflutningseftirliti á miðsvæði Austurlands og samningur gerður þar um, en vegna útflutningsbanns Rússa er engin vinna því samfara.

HAUST samþykkti ásamt tveim öðrum eftirlitssvæðum að gerast aðili að gagnakerfi Matvælastofnunar til að halda utan um og skrá matvælaeftirlit.  Mikil vinna er við að skrá í grunninn og hefur sú vinna nokkuð dregist, en vonir bundnar við að taka grunninn í notkun að fullu á árinu 2016.  Eftir sem áður verður hollustuhátta- og mengunarvarnaeftirlit skráð í eldri tölvukerfi sem og fjárhags- og eftirlitsáætlanir, þannig að flækjustigið mun ekki minnka í heild, a.m.k. ekki til að byrja með.

Vinna í vatnasvæðanefndum og vatnaráði hefur alveg legið niðri frá síðasta aðalfundi enda nánast allt fé til málaflokksins skorið niður.  Af hálfu sveitarfélaganna er ástæða til að hafa áhyggjur af að sú vinna sem búið var að leggja í málaflokkinn glatist að einhverju

Starf Heilbrigðisnefndar frá seinasta aðalfundi
Mannabreytingar innan nefndar

Breytingar hafa orðið á skipan heilbrigðisnefndar á starfsárinu. Í stað Lilju Kristjánsdóttur hefur Sandra Konráðsdóttir tekið við sem aðalmaður og í stað Þórhalls Harðarsonar hefur Anna Alexandersdóttir komið inn sem varamaður.  Hvort tveggja eru þetta breytingar á skipan fyrir norðursvæði

Formaðurinn sjálfur, Eiður, lætur af störfum á þessum aðalfundi, þar sem hann hefur flutt sig um set milli sveitarfélaga á svæðinu.

Frá aðalfundi 2014 hafa verið haldnir sjö fundir í heilbrigðisnefndinni. Af þessum fundum hafa fjórir verið símleiðis, en ný heilbrigðisnefnd skipuð í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 2014 hittist á Egilsstöðum í nóvember 2014 og aftur í apríl 2015.  Aprílfundurinn var sérstaklega haldinn vegna óskar forstjóra Umhverfisstofnunar um að fá hitta nýja nefnd.  Nefndin hittist síðan einnig í Neskaupstað í september sl. til að fara vel yfir fjárhagsáætlun og tillögur að breytingu á gjaldskrá.

Starfsfólk

Starfslið HAUST er óbreytt, þó með þeirri nýbreytni að seinni part árs 2014 ákvað heilbrigðisnefnd að framlengja ráðningu sumarstarfsmanns til ársloka 2015, enda fyrirséð að framkvæmdastjóri og hans staðgengill yrðu samtals í leyfum í 5 mánuði á árinu.  Það sem ekki var fyrir séð var að afleysingamaðurinn þarfnaðist einnig leyfis vegna barneigna.  Þannig hefur HAUST áskotnast tvö barnabörn á árinu 2015.

Starfsemi ársins hefur eðlilega nokkuð markast af löngum fríum starfsmanna og að þeir sem eru í vinnu hlaupa í skarðið fyrir hina.  Júlía Siglaugsdóttir, sem er alla jafnan í 60% stöðu var í fullri vinnu í 3 mánuði í sumar, en ljóst er að það má ekki mikið út af bera að ná yfirferð yfir verkefnin í ár.

Verklag og verkaskipting

Verkaskipting milli nefndar og starfsmanna er nokkuð fastmótuð, þ.e. að nefndin mótar stefnu í rekstri og málaflokkum auk þess að taka ákvarðanir í málum sem orka tvímælis og um beitingu þvingunarúrræða.  Í þeim tilvikum sem slík staða hefur komið upp, hafa nefndarmenn ávalt rætt málin og komist að sameiginlegri niðurstöðu og er það ánægjulegt að sjá hversu samstíga menn hafa verið í þeim málum sem komið hafa til kasta nefndarinnar til úrlausnar.

Starfsmenn sinna öllum daglegum störfum og hafa fullt traust nefndarinnar til að gefa út starfsleyfi til bókunar á næsta fundi og ljúka málum þar sem skilyrðum rekstrar er mætt eða hægt að ná með leiðbeiningum og stuttum frestum. 

Störf heilbrigðiseftirlits verða æ flóknari og sífellt er aukin krafa um sérhæfingu.  Á sama tíma þarf að gæta þess vel að starfsmenn færist milli verkefna til ákveðin endurnýjun verði og ný sýn á málaflokka, án þess þó að fagleg þekking og reynsla tapist.

Lokaorð

Það er búið að vera fyrir mig einkar lærdómsríkt og skemmtilegt að sitja í þessari nefnd undanfarin ár.  Hef ég kynnst mörgu fólki og fengið góða innsýn í störf Heilbrigðiseftirlitsins og hlutverk þess. 

Vil ég þakka starfsfólki og nefndarmeðlimum fyrir samstarfið og óska ykkur öllum alls hins besta á komandi árum.

28. október 2015

Eiður Ragnarsson                               Helga Hreinsdóttir
formaður heilbrigðisnefndar                frkvstj. HAUST

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search