Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2017

Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands til aðalfundar HAUST bs.  1. nóvember 2017
flutt af Jóni Birni Hákonarsyni, formanni heilbrigðisnefndar

Heilbrigðisnefndin

Sú heilbrigðisnefnd sem nú starfar hefur verið óbreytt frá aðalfundi 2015 og sá sem hér talar hefur verið formaður jafnlengi. Rétt er að minna á að heilbrigðisnefnd Austurlands er jafnframt stjórn byggðasamlags um rekstur HAUST skv. stofnsamningi frá árinu 1998.

Aðalfundur 2015 var haldinn í Hoffelli í Öræfum, 2016 var hann haldinn í Fljótsdal og nú er aðalfundurinn haldinn á Vopnafirði. Þetta sýnir að starfssvæði nefndarinnar er landfræðilega vítt, en það er einnig afar umfangsmikið faglega, allt fá vernd neysluvatns og smitgátar, öryggis íbúa yfir í mengunarvarnir og viðbrögð við mengunarslysum. Nefndin sjálf vinnur að stefnumótun í málaflokkum en hefur með bókun falið starfsmönnum að afgreiða mál á milli funda eftir því sem hægt er. Á nefndarfundum eru mál síðan afgreidd formlega og tekin fyrir mál sem ekki er hægt að afgreiða milli funda.

Á starfsárinu hafa verið haldnir sex fundir. Þar af hafa fjórir fundir verið símleiðis en tvisvar hefur nefndin hist, enda er mikilvægt að ræða fjárhagsáætlanir og flóknari mál yfir borð en ekki símleiðis.

Hrunárið 2008 var mikill halli á rekstri HAUST. Í kjölfarið var mjög saumað að starfsemi HAUST hvað varðar húsnæði, ferðalög og endurmenntun, frestað var endurnýjun bifreiða o.þ.h. Árin frá 2009 til 2013 var rekstur HAUST hallalaus, þannig að sjóður safnaðist og fjárhagsáætlanir voru samþykktar með halla árin 2014-2017. Núverandi stjórn HAUST leggur áherslu á að byggðasamlagið sé rekið hallalaust og að gjöld standi sem næst undir veittri þjónustu eins og vera ber.

Starfsfólk

Síðan á aðalfundi 2016 hafa verið meiri sviptingar í starfsmannahaldi en við eigum að venjast, enda er starfsaldur hjá heilbrigðiseftirliti alla jafnan langur. Enginn starfsmaður hefur sagt upp á árinu en vegna fæðingarorlofa Leifs og Drafnar hefur Hrund Erla Guðmundsdóttir verið ráðin fram á mitt sumar 2018.

Helga hefur fengið árs leyfi frá stöðu framkvæmdastjóra frá 1.2.2018 og jafnframt verið ráðin í hlustastöðu sem heilbrigðisfulltrúi frá sama tíma. Leifur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri í hennar stað og Lára tekur við sem staðgengill framkvæmdastjóra.

Breytingar í starfsumhverfi heilbrigðiseftirlits

Á síðasta aðalfundi kynnti Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hugsanleg áform um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, þ.m.t. hugsanlegar breytingar á skipan heilbrigðisnefnda. Lögunum var í tvígang breytt á árinu 2017, meginatriði sem snúa að heilbrigðiseftirliti eru annars vegar var opnað á að breyta starfsleyfisskyldu í tilkynningaskyldu og hins vegar var tekinn inn í lögin stór málaflokkur vegna EES samninga um mengun frá iðnaði. Einnig varð nokkur tilfærsla á verkefnum milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits, m.a. er eftirliti með stærstu þauleldisfyrirtækjum fært frá heilbrigðiseftirliti og til Umhverfisstofnunar. Tilfærslan er þó ekki jafnmikil og boðuð hafði verið og ekki er að fullu fyrirséð hvaða áhrif þetta hefur á störf heilbrigðisnefnda. Hins vegar hefur ráðuneytið boðað áframhaldandi vinnu við breytingar á hollustuháttalögunum og ekki ljóst hvert stefnir í þeim pólitíska glundroða sem við búum við.

Lengi hefur verið beðið eftir breytingum á reglugerðum sem hafa verið í vinnslu innan UAR. Nú hefur ný reglugerð um varnir gegn olíumengun vegna starfsemi í landi tekið við af reglugerð með sama nafni sem var frá 1993. Þessi nýja reglugerð er vel unnin og færir heilbrigðiseftirlit ný verkefni, svo sem aðkomu að olíutönkum á höfnum, sem lengi hefur verið kallað eftir. Breytingar hafa verið gerðar á hollustuháttareglugerð m.a. til að samræma hana nýrri byggingareglugerð og nú á seinustu dögum fyrir kosningar var samþykkt breyting á baðvatnsreglugerð þannig að nýtt hugtak „afþreyingalaug“ bætist í flóruna og einnig reglugerð sem heimilar hunda og ketti inn á veitingastaði skv. ákveðnum reglum þar um.

Úrskurðir sem hafa fallið á árinu hafa verið misvísandi, þannig hefur t.d. verið úrskurðað að heilbrigðisnefnd þurfi að fjalla um mál sem hefð var fyrir að starfsmenn ynnu, úrskurðað var að heilbrigðisfulltrúar mættu ekki fela starfsmönnum sveitarfélaga álímingar á númerslausa bíla, heldur yrðu sjálfir að framkvæma álímingar og nú seinar féll úrskurður sem tekur af tvímæli um að heilbrigðiseftirliti er heimilt að láta taka til á einkalóðum.

Allar þessar og fleiri breytingar munu hafa áhrif á starfsumhverfi heilbrigðiseftirlits og einhvern tíma tekur að aðlaga starfsemina og fá túlkanir á verklag. Varðandi upphreinsun á lóðum, þá er um að ræða stefnubreytingu frá því sem hefur verið túlkun og skilningur HAUST og verður sérstaklega fjallað um það mál í lok aðalfundar, enda mikið þjóðþrifamál.

Reglugerð sem enn er í vinnslu innan UAR og beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu er ný eða endurskoðuð fráveitureglugerð. Vinna við hana hefur af ýmsum ástæðum gengið brösótt og drög sem send voru til kynningar hafa hlotið misjafnar undirtektir. Ljóst er að miklu máli skiptir hvernig til tekst með þessa reglugerð hvað varðar fjárhag sveitarfélaga, enda eru úrbætur í fráveitumálum kostnaðarsamar, en einnig varðandi atvinnustarfsemi og hreinleika lands og sjávar til langrar framtíðar.

Enn er rétt að vekja athygli á þeirri skoðun Heilbrigðisnefndar Austurlands að nefndin og starfmenn hennar séu vel í stakk búin til að taka við frekari verkefnum frá ríkisstofnunum og að við teljum þau eiga betur heima í héraði.

1. nóvember 2017

Jón Björn Hákonarson
formaður heilbrigðisnefndar

Helga Hreinsdóttir
frkvstj. HAUST

pdfFundargerð aðalfundar 2017 ásamt skýrslu stjórnar

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search