Stofnsamningur - Byggðasamlags um rekstur Heilbrigðiseftirlits Austurlands

Eftir aðalfund HAUST 1. nóvember 2017 
með breytingu sem gerð var á 2. mgr. 15. gr. á aðalfundi HAUST 24.10.2012, með breytingum sem voru gerðar á gr. 12 og 14
á aðalfundi HAUST  
1.10.2014 og með breytingum sem gerðar voru á 5.gr. á aðalfundi HAUST 1.11.2017


Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur og sveitarfélagið Hornafjörður gera með sér svohljóðandi …

stofnsamning um byggðasamlag um HEILBRIGÐISEFTIRLIT Á AUSTURLANDI:

1. Sveitarfélögin sem standa að samningi þessum reka sameiginlega frá 1. ágúst 1998 byggðasamlag um Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST).

2. Heimili og varnarþing HAUST er í Fjarðabyggð. 

3.  Starfssvæði HAUST er Austurlandssvæði sbr. 6. tl. 45. gr. laga nr. 7/1998 Aðildarsveitarstjórnir eru sammála um að svæðið skiptist í eftirtaldar undirdeildir:

  1. Norðursvæði:       Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur og   Seyðisfjarðarkaupstaður
  2. Miðsvæði:            Fjarðabyggð 
  3. Suðursvæði:         Djúpavogshreppur og Hornafjörður

4. Verkefni HAUST er að vinna að eftirliti og úrbótum á sviði hollustuhátta og mengunarvarna í samræmi við lög og reglugerðir, annast fræðslu fyrir almenning og efla samvinnu við önnur yfirvöld í málaflokki þessum.

5. Til að vinna að verkefnum þeim, sem lög og reglugerðir kveða á um eða aðildarsveitarfélögin kjósa að unnið skuli að á vettvangi HAUST, skulu á fyrsta aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Austurlands bs eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar, kosnir fimm fulltrúar í heilbrigðisnefnd og jafnmargir til vara.  Jafnframt skal kosinn einn fulltrúi náttúruverndarnefnda og einn til vara og leitað eftir tilnefningu eins fulltrúa og eins til vara frá samtökum atvinnurekenda á svæðinu. Skal kjöri aðalmannanna fimm þannig háttað að tveir nefndarmannanna koma frá hverri undirdeild, nema einn frá þeirri deild sem hefur heimili og varnarþing HAUST. Í samræmi við 14. gr. laganna skiptir nefndin sjálf með sér verkum, en samkomulag er um það milli aðildarsveitarfélaganna að formaður og fulltrúi náttúruverndarnefnda komi af því svæði, sem á aðeins einn fulltrúa í nefndinni. Fulltrúi náttúruverndarnefnda hefur málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.  Ný heilbrigðisnefnd taki til starfa á aðalfundi HAUST, eftir að fyrri nefnd hefur skilað skýrslu, ársreikningum og fjárhagsáætlun.  

6. Til að tryggja að saman fari fagleg og fjárhagsleg ábyrgð fer stjórn með málefni byggðasamlagsins milli aðalfunda. Skipa hana sömu menn og kjörnir eru í heilbrigðisnefnd skv. 5. gr. stofnsamnings þessa og er verkaskipting þeirra og kjörtímabil hið sama.

7. Ef aðalmaður í heilbrigðisnefnd kýs að hætta störfum eða flytur burt af svæði því, sem honum er ætlað að vera fulltrúi nefndarinnar á, ber honum að hlutast til um að varamaður taki sæti hans og að sveitarstjórnir á viðkomandi svæði skipi annan varamann í hans stað. Hið sama gildir í þeim tilfellum að varamaður lætur af störfum af sambærilegum ástæðum.

8. Aðalfundur HAUST skal haldinn eigi síðar en 15. nóvember ár hvert. Skal miða við það að dreifa staðsetningu aðalfundanna um starfssvæðið. Til aðalfundar boðar stjórn eigi síðar en þrem vikum fyrir fundardag. Eigi síðar en 1. nóv. og a.m.k. einni viku fyrir aðalfund skal öllum aðildarsveitarfélögunum hafa verið send dagskrá hans, ársreikningar fyrir næstliðið starfsár og fjárhagsáætlun þar sem fram kemur áætlað framlag hvers og eins aðildarsveitarfélags og áætlaðar breytingar milli ára m/v niðurstöðutölu áætlunarinnar. Með samþykkt fjárhagsáætlunar er jafnframt ákveðið heildarframlag aðildarsveitarfélaganna fyrir viðkomandi starfsár. Heildarframlög sveitarfélaganna eru tvenns konar: Annars vegar áætlaðar tekjur af eftirlitsskyldri starfsemi í hverju sveitarfélagi, og hins vegar bein gjöld sveitarfélaga skv. íbúafjölda næstliðins árs. Sveitarfélög greiða framlög til HAUST með mánaðarlegum greiðslum og innheimta eftirlitsgjöld af sínum fyrirtækjum. Gjalddagar eru 12 á ári, fyrsta virkan dag hvers mánaðar, fyrir minnstu sveitarfélögin er þó heimilt að semja um færri gjalddaga. Heimilt er að reikna dráttarvexti á framlög sveitarfélaganna skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, berist þau ekki í síðasta lagi 10. dag hvers mánaðar.

Form ársreikninga og fjárhagsáætlunar skal vera í samræmi við reikningsskilareglur sveitarfélaga.

Á aðalfundi skal stjórn leggja fram skýrslu um starfsemi frá seinasta aðalfundi og gera grein fyrir áformum um helstu viðfangsefni komandi starfsárs í samræmi við fram lagða fjárhagsáætlun. Á aðalfundi skulu og eftirtalin mál afgreidd:

a)   Reikningar næstliðins starfsárs
b)   Fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár í samræmi við ákvæði 12. gr. laga nr. 7/1998
c)   Kjörinn löggiltur endurskoðandi
d)   Kjörnir tveir skoðunarmenn ársreikninga og jafnmargir til vara
e)   Önnur mál eftir því sem dagskrá fundarins segir til um.

Aðalfundur er löglegur sé til hans boðað í samræmi við samþykkt þessa. Einfalt meirihlutasamþykki með hliðsjón af mætingu á fundinn nægir við afgreiðslu á málum skv. tl. 8. a) til e). Aðrir fulltrúafundir en aðalfundur skulu haldnir eftir því sem þurfa þykir og nægir að boða til þeirra skriflega með viku fyrirvara. Einn fjórði hluti aðildarsveitarfélaganna eða a.m.k. þrír stjórnarmanna geta farið fram á fulltrúafundi, enda sé fundarefni tilgreint. Skulu slíkir fundir haldnir eigi síðar en þrem vikum eftir að lögleg ósk kemur fram um að svo skuli gert.

9. Sérhver sveitarstjórn á starfssvæði HAUST kýs árlega a.m.k. einn fulltrúa og annan til vara á aðalfund og aðra fulltrúafundi. Séu fulltrúar fleiri en einn skal getið um skiptingu atkvæða milli þeirra á kjörbréfi. Hvert sveitarfélag greiðir ferða- og uppihaldskostnað fulltrúa síns eða sinna umfram það, sem ráð kann að vera fyrir gert í fjárhagsáætlun vegna aðalfundar eða annarra funda. Regla um vægi atkvæða á fulltrúafundum er svohljóðandi:

Fjöldi íbúa: Fj. fulltr a.m.k.: Viðbót: Vægi atkv.:
     0 -  200 1   1
 201 -  550 1 +1 2
 551 -  900 1 +2 3
 901 - 1250 1 +3 4
1251 - 1600 1 +4 5
1601 - 1950 1 +5 6
1951 - 2300 1 +6 7
2301 - 2650 1 +7 8
2651 - 3000 1 +8 9
3001 - 3350 1 +9 10 o.s.frv.


10.  Heilbrigðisnefnd ræður heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaganna með viðfangsefnum þeim, er falla undir starfsemina skv. lögum og reglugerðum. Starfsheiti hans er framkvæmdastjóri HAUST. Í ráðningarsamningi skal kveða á um launakjör heilbrigðisfulltrúa, vinnutíma, orlof, lífeyri og gagnkvæman uppsagnarfrest af hálfu beggja aðila. Gera skal sérstaka starfslýsingu um verksvið framkvæmdastjóra og skoðast hún sem hluti af ráðningarsamningi. 

Framkvæmdastjóri ræður með sambærilegum ráðningarsamningum aðra starfsmenn (heilbrigðisfulltrúa) í umboði nefndarinnar. Um kröfur til hæfni starfsmanna og faglegar skyldur fer skv. lögum þeim, er starfsemin byggir á. Varðandi skrifstofuaðstöðu starfsmanna skal tekið tillit til búsetu þeirra og þjónustusvæða.
Heimilt er nefndinni að semja við sveitarstjórn á svæðinu, sem samkomulag verður um, að annast fjárhagslega umsýslan fyrir byggðasamlagið gegn greiðslu.

11. Úr sjóðum HAUST skal greiða laun starfsmanna, sem ráðnir eru skv. 10. gr., kostnað við stjórn heilbrigðiseftirlitsins, fundahöld, ferðalög og uppihald starfsmanna, kostnað skv. 12. gr. svo og allan annan tilfallandi kostnað, enda sé ráð fyrir honum gert í fjárhagsáætlun viðkomandi árs.

12. Fundi í heilbrigðisnefndinni skal halda svo oft sem þurfa þykir og boða til þeirra með dagskrá a.m.k. þremur dögum fyrir fund. Orðið "nefnd" í samþykktum þessum lesist því einnig sem "stjórn" eftir því sem við á. Nefndarlaun svo og ferða- og uppihaldskostnaður v/ funda greiðist af rekstrarfé HAUST. Nefndarfundur er ályktunarhæfur ef a.m.k. fjórir af sex atkvæðisbærum nefndarmönnum mæta til fundar, hvort sem um er að ræða staðbundinn fund, símafund eða fjarfund, enda hafi verið boðað til hans með löglegum hætti.  Falli atkvæði jöfn við atkvæðagreiðslu í stjórn hefur atkvæði formanns aukið vægi.  Nefndinni er ekki heimilt að skuldbinda HAUST fjárhagslega, né heldur á neinn hátt að skuldbinda aðildarsveitarfélögin fjárhagslega umfram samþykkta fjárhagsáætlun. Ekki er þörf á að samþykktir nefndarinnar séu staðfestar af sveitarstjórnum, svo fremi að þær séu innan ramma fjárhagsáætlunar stofnunarinnar, í samræmi við starfssvið HAUST og settar fram í þess nafni. 

13. Framkvæmdastjóri HAUST skal sitja nefndarfundi með málfrelsi og tillögurétt, en ber þó að víkja af fundi, sé nefndin að fjalla um persónuleg mál hans. Nefndinni er heimilt að boða aðra starfsmenn á fundi eftir þörfum. 

14. Framkvæmdastjóri skal framfylgja ákvörðunum sem teknar eru á fundum nefndarinnar og auk þess stjórna eftirliti með þeim málaflokkum er falla undir nefndina í samræmi við lög og reglugerðir.

Milli funda er starfsmönnum heimil afgreiðsla mála, svo sem umsóknir um starfsleyfi, umsagnir o.þ.h. þar sem skilyrðum laga og reglna er fullnægt.  Formaður heilbrigðisnefndar ásamt varaformanni og framkvæmdastjóra eða hans staðgengli mynda framkvæmdaráð og er þeim heimil vinna að framvindu mála milli nefndarfunda, séu þeir sammála.

Fullnaðarafgreiðsla mála fer fram á löglega boðuðum fundum heilbrigðisnefndar.

Fundargerðir skulu færðar í tölvu. Ef nefndarfundur er haldinn símleiðis eða í fjarfundabúnaði skal senda fundarmönnum drög að fundargerð í tölvupósti og tekur fundargerðin gildi þegar meirihluti nefndarmanna hefur staðfest samþykki sitt með tölvupósti. Fundargerðir skulu undirritaðar af fundarmönnum eins fljótt og auðið er. 
Fundargerðir HAUST skulu sendar nefndarmönnum, aðildarsveitarfélögum og öðrum er nefndin ákveður.

15. Aðildarsveitarfélögin bera ábyrgð á öllum fjárskuldbindingum HAUST í réttu hlutfalli við árstillög sveitarfélaga til stofnunarinnar hverju sinni. 

Komi til ófyrirsjáanlegra fjárútláta, svo sem vegna langvarandi veikinda starfsmanna HAUST, mengunarslysa eða matarsýkinga hefur framkvæmdastjóri með fulltingi stjórnar umboð til að taka bankalán vegna útgjaldanna, þó að hámarki sex milljónir. Gera skal ráð fyrir endurgreiðslu slíkra lána í fjárhagsáætlun næsta árs og bera sveitarfélögin ábyrgð á endurgreiðslu þeirra í réttu hlutfalli við íbúafjölda. 

16. Um uppgjör eigna og skulda byggðasamlagsins við slit þess fer skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga. 

17. Hægt er að breyta samningi þessum á fulltrúafundi með samþykki 2/3 hluta sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga.

18. Að öðru leyti en kveðið er á um í stofnsamningi þessum gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga um samstarf sveitarfélaga í byggðasamlögum.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search